Íslenski boltinn

Komast Víkingar í úrslitaleikinn í fyrsta sinn eða bæta Valsmenn metið?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Páll Sigurðsson og Igor Taskovic.
Haukur Páll Sigurðsson og Igor Taskovic. Vísir/Stefán
Valsmenn og Víkingar keppa um það í kvöld að komast í úrslitaleik á móti KR í Lengjubikar karla í knattspyrnu og verður undanúrslitaleikur þeirra sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

Bæði lið geta skrifað sögu keppninnar með sigri í kvöld, Víkingar orðið þrettánda félagið til að spila til úrslita og Valsmenn bætt metið yfir flesta úrslitaleiki.

Undanúrslitaleikur Vals og Víkings hefst klukkan 19.00 og fer fram á Valsvellinum á Hlíðarenda. KR tryggði sér sæti í úrslitaleiknum með 4-0 sigri á Keflavík á föstudagskvöldið.

Víkingar slógu Leiknismenn út úr átta liða úrslitum keppninnar í vítakeppni en Valsmenn unnu 2-1 sigur á Breiðablik í sínum leik í átta liða úrslitunum.

Víkingar geta með sigri komist í úrslitaleik Lengjubikarsins í fyrsta sinn en þeir eru ekki eitt af þeim tólf félögum sem hafa spilað til úrslita í keppninni.

Víkingar voru í sömu stöðu fyrir ári síðan en töpuðu þá 1-0 á móti verðandi meisturum í Breiðabliki.

Valsmenn eiga aftur á móti möguleika á því að vera fyrsta félagið sem spilar átta sinnum til úrslita um deildabikar KSÍ en þeir hafa nú spilað sjö leiki eins og FH.

Valsmenn hafa enn ekki tapað í keppninni, hafa unnið fjóra leiki og gert tvö jafntefli. Eina tap liðsins í undirbúningsmótunum tveimur kom á móti Leikni í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins.

Guðjón Pétur Lýðsson skoraði eina markið þegar Valur vann 1-0 sigur á Víkingum í undanúrslitaleik Reykjavíkurmótsisn sem fór fram í Egilshöllinni 4. febrúar síðastliðinn.

Lið sem hafa spilað til úrslita í deildabikar KSÍ

Valur        7

FH        7

KR        7 (með 2016)

Breiðablik    5

ÍA        3

Fylkir        3

Keflavík    2

Fram        2

ÍBV        1

Grindavík    1

Þróttur        1

KA        1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×