Íslenski boltinn

Enn einn erlendi leikmaðurinn í Fjölni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Solberg, til hægri, í leik með danska U-19 liðinu árið 2014.
Solberg, til hægri, í leik með danska U-19 liðinu árið 2014. Vísir/Getty
Sóknarmaðurinn Marcus Solberg er genginn til liðs við Fjölni og mun spila með liðinu í Pepsi-deild karla í sumar. Þetta tilkynnti félagið í morgun.

Solberg er 21 árs og kemur á lánssamningi frá danska B-deildarliðinu Silkeborg út tímabilið. Hann er sjötti erlendi leikmaðurinn sem semur við Fjölni sem náði sínum besta árangri í Pepsi-deild karla frá upphafi síðastliðið sumar. Grafarvogsliðið hafnaði þá í sjötta sæti.

Sjá einnig: Fimmti erlendi leikmaðurinn kominn í Fjölni

Solberg á rúma 20 leiki að baki með yngri landsliðum Danmerkur og spilaði reglulega með Silkeborg fyrir áramót. Alls skoraði hann þá þrjú mörk í þrettán leikjum en hann var byrjunarliðsmaður í fjórum þeirra.

Hann hefur hins vegar ekkert spilað með Silkeborg eftir vetrarfríið og fær því tækifæri til að koma sér af stað á nýjan leik með Fjölni í sumar.

Fjölnismenn hafa misst lykilmenn úr sínu liði frá síðasta sumri en bætt við sig tveimur leikmönnum frá Króatíu og nú fjórum frá Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×