Viðskipti innlent

Hannes: Ísland ætti að vera skattaskjól

ingvar haraldsson skrifar
Hannes Hólmsteinn Gissurarson segir umræðuna um skattamál vera á villugötum.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson segir umræðuna um skattamál vera á villugötum. vísir/stefán
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir í færslu á Pressunni að umræðan hér á landi um skattamál að undanförnu hafa byrjað á öfugum enda. „Vandinn er, að auðmenn kjósa stundum að geyma fé sitt annars staðar frekar en á Íslandi. Verkefnið ætti þá að vera að gera það fýsilegt fyrir þá að kjósa að geyma það hér á landi,“ segir Hannes.

Því ætti verkefnið að vera að gera Íslands fýsilegt fyrir þá sem kjósi að geyma fé hér á landi. „Það verður best gert með lágum sköttum, opnu hagkerfi og föstum og fyrirsjáanlegum reglum um réttarfar. Það er eitthvað óeðlilegt við það, að fé leiti frá Íslandi til Lúxemborgar, Hollands, Bretlands og Bresku jómfrúreyja, svo að minnst sé á algengustu skattaskjólin. Af hverju leitar fé útlendinga einmitt ekki frekar hingað til Íslands?,“ segir hann.

Með því móti þyrftu auðugir Íslendingar ekki að fara með fé úr landi til að greiða af því lægri skatta. „Ég er hissa á, að enginn skuli ræða þennan flöt málsins. Ísland er sérlega vel í stakk búið til að veita Mön og Ermarsundseyjum og fleiri skattaskjólum samkeppni um fjármagn og fyrirtæki. Það ætti að vera verkefni okkar í stað þess að reyna það, sem vonlaust er, að koma í veg fyrir, að fjármagn leiti þangað, sem það ávaxtast best og er öruggast.“

Þó sé sjálfsagt að um sé að ræða vel fengið fé að sögn Hannesar. „Fjármagn og fyrirtæki eru eftirsóknarverð. Við ættum að skapa þeim skilyrði til að leita hingað til lands,“ segir Hannes.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×