Veiði

Yfir 100 sjóbirtingar komnir úr Vatnamótunum

Karl Lúðvíksson skrifar
Flottur sjóbirtingur úr Vatnamótunum
Flottur sjóbirtingur úr Vatnamótunum
Það berast margar góðar fréttir að austan frá sjóbirtingssvæðunum og miðað við veðurspá næstu daga stefnir í frábæra aprílveiði.

Veiðin í fyrra var oft á tíðum mjög dyntótt en það var ekki skort á fiski að kenna heldur ísköldu og hvössu vori eins og veiðimenn minnast með hryllingi.  Nú er bara allt annað uppá teningnum og vorveðrið leikur við hvern sinn fingur og þannig er veðurspáin áfram um allt land fram að næstu helgi.

Vatnamótin voru til að mynda gífurlega erfið suma dagana í fyrra þegar það var sífellt rok og þar af leiðandi erfitt að kom flugunni út.  Veiðisvæðið er síbreytilegt vegna hreyfingar á sandinum ,eins og veiðimenn þekkja, og á einum af besta staðnum er sandhryggur sem fiskurinn liggur upp við í skilunum það utarlega að vonlaust var að kasta á hann flesta daga í fyrra.  Þetta er öllu minna mál núna og það sést á veiðitölunum.  Núna hafa veist yfir 100 flottir sjóbirtingar og sá stærstu sem við höfum heyrt af 97 sm en fiskar í stærðinni 75-95 sm eru sífellt að verða algengari á sjóbirtingsslóðum og þar ber að þakka "Veitt og Sleppt" veiði.

Sjóbirtingurinn sem nær þessum stærðum verður nefnilega oft nokkuð gamall og veiðist þá aftur og aftur veiðimönnum til ánægju.  Á þeim tímum þegar allt var drepið voru sjóbirtingar af þessari stærðargráðu ekki algengir.






×