Íþróttadeild 365 spáir einmitt ríkjandi meisturum FH Íslandsmeistaratitlinum þetta sumarið. FH var í hefndarför síðasta tímabil eftir að verða af titlinum í dramatískum úrslitaleik gegn Stjörnunni 2014 og stóð uppi sem sannfærandi sigurvegari. FH hefur unnið alla sjö titla sína frá 2004 en undanfarin tólf ár hefur liðið aldrei hafnað neðar en í öðru sæti.
Heimir Guðjónsson er áfram kóngurinn í Krikanum en hann er búinn að þjálfa liðið síðan 2008 og gera það fjórum sinnum að Íslandsmeistara. Hann var fyrirliði FH þegar liðið varð meistari í fyrsta sinn og fagnaði svo einnig sigri sem aðstoðarþjálfari 2006. Hann er búinn að vera stór hluti af sigurgöngu FH-inga undanfarinn áratug jafnt innan vallar sem utan.

FH-ingar byrja mótið gegn nýliðum Þróttar og ættu þar að geta unnið sannfærandi sigur. Með stórum sigri sem heldur liðinu á toppnum eftir fyrstu umferðina er ekkert útilokað að FH-liðið verði þar það sem eftir lifir móts. FH á svo annan þægilegan leik gegn ÍA á heimavelli í annarri umferðinni áður en erkifjendurnir FH og KR mætast svo í þriðju umferð mótsins. Þessir stórleikir verða að hætta að fara svona snemma fram. Eftir annan þægilegan leik gegn Fjölni heldur FH svo í Garðabæinn og mætir eina liðinu sem getur státað sig af jafnstórum leikmanni hópi og það sjálft; Stjörnunni.
01. maí: Þróttur – FH, Þróttarvöllur
08. maí: FH – ÍA, Kaplakrikavöllur
12. maí: KR – FH, Alvogen-völlurinn
16. maí: FH – Fjölnir, Kaplakrikavöllur
23. maí: Stjarnan – FH, Samsung-völlurinn

Gunnar Nielsen: Eini veikleiki FH-liðsins undanfarin ár ef veikleika má kalla hefur verið markvarslan. Nú eru FH-ingar búnir að fá til sín Gunnar Nielsen, færeyska landsliðsmarkvörðinn sem spilaði með Stjörnunni í fyrra. Gunnar á að vera síðasta púslið sem kemur FH í riðlakeppni Evrópudeildarinnar en svo gæti farið að Hafnafjarðarliðið verði í dauðafæri að skrifa nýjan kafla í íslenska fótboltasöguna í sumar.
Davíð Þór Viðarsson: Sama hversu sterkur hópur FH-liðsins er og verður virðast alltaf vera sömu tveir mennirnir sem liðið treystir á að standi sig ætli það alla leið. Það eru Davíð Þór Viðarsson og Atli Guðnason. Davíð Þór er ekki bara einn besti miðjumaður deildarinnar heldur leiðtogi og andlit besta liðs á Íslandi í dag. Ef hann spilar vel er ansi erfitt að brjóta niður FH-liðið en það á mun auðveldara með að brjóta niður andstæðinga sína.
Atli Guðnason: Framherjinn magnaði sem tvisvar sinnum hefur verið kosinn besti leikmaður tímabilsins af kollegum sínum íhugaði að hætta í vetur. Hann hætti við að hætta og verður eins og alltaf lykilmaður hjá FH. Hann sýndi nú bara síðast í Meistarakeppni KSÍ að þegar neyðin er stærst hjá FH þá er hjálpin oftast smæst og hún heitir Atli Guðnason. Ótrúlega naskur markaskorari og einfaldlega einn besti leikmaður efstu deildar undanfarinn áratug.

Komnir:
Bergsveinn Ólafsson frá Fjölni
Gunnar Nielsen frá Stjörnunni
Sonni Ragnar Nattestad frá Danmörku
Farnir:
Böðvar Böðvarsson til Midtjylland á láni
Jón Ragnar Jónsson hættur
Kristján Pétur Finnbogason í Leikni R. á láni
Pétur Viðarsson á leið í nám erlendis
Róbert Örn Óskarsson í Víking R.
FH-ingar voru bara rólegir á markaðnum í vetur og styrktu það sem þeir þurftu að styrkja. Þeir fengu sterkari markvörð þegar þeir sömdu við Gunnar Nielsen og sendu Róbert Örn Óskarsson í Víking.
FH-ingar þurftu einnig miðvörð þar sem Pétur Viðarsson fór í nám og þá sótti liðið einn besta miðvörð deildarinnar í fyrra; Bergsvein Ólafsson. Bergsveinn er hörku miðvörður sem á þó eftir að sanna sig að spila fyrir stærra lið. Hann hefur aftur á móti verið mjög góður í vetur.
Það var ekki mikið að gerast í vetur hjá FH á markaðnum enda þurfti liðið ekki að gera mikið. Það kemur til leiks með sterkari hóp en í fyrra.

Hvað er hægt að segja um FH sem hefur ekki verið sagt um FH. Þetta er bara frábært fótboltalið sem er búið að vera á toppnum í íslenskum fótbolta í tólf ár.
FH-ingar eru vel mannaðir í öllum stöðum jafnt innan vallar sem utan með góðan þjálfara, góðan formann og engan veikan blett að finna á þessu FH-starfi.
Vandamálið er að tveir bestu mennirnir eru að eldast; Atli Guðnason og Davíð Þór Viðarsson. En það er kannski ekki mikið vandamál núna.
Það er eina sem FH vantar er tvennan, að vinna deild og bikar. Þá þyrstir að taka tvennuna sem öll þessu bestu lið í gegnum árin hafa tekið. Á síðustu 20 árum hafa þessi bestu lið eins og ÍA, ÍBV og KR í tvígang.

Spurningamerkin eru... meiðsli Gunnars Nielsen. Hann byrjar mótið mögulega meiddur og ef hann helst ekki heill er 44 ára gamall Kristján Finnbogason á bekknum. Fleiri eru spurningamerkin eiginlega ekki.

Spilar FH eins og FH og verður meistari í áttunda sinn. Það þarf ansi mikið að gerast hjá þessu vel manaða og vel þjálfaða liði svo það verði ekki meistari.
Í VERSTA FALLI:
Verður Gunnar Nielsen eitthvað frá og FH tapar stigum vegna þess. Kristján Finnbogason er þó enginn slugsi í markinu eins og hann sýndi í meistaraleiknum. FH fór í gegnum tímabil í fyrra þar sem liðið var rosalega pirrað út í allt og alla en það lagaðist og húrraði liðið sér á Íslandsmeistaratitilinn. Verði menn í fýlu með markvörðinn meiddan og fleiri lykilmenn gæti silfrið orðið FH-inga.