Reynir úr Sandgerði vann Pepsi-deildarlið KR í vítakeppni í minningarleik um Magnús Þórðarson en hann fór nú fram í níunda sinn í gær.
Fyrsti minningarleikurinn um Magnús Þórðarson fór fram árið 1985 en þetta var fyrsti leikurinn frá árinu 2009. KR-ingar segja frá leiknum á heimasíðu sinni.
Tomislav Misura kom Reyni yfir í byrjun síðari hálfleiks en Atli Hrafn Andrason jafnaði metin úr vítaspyrnu aðeins níu mínútum síðar. Reynir Sandgerði vann síðan 4-3 í vítaspyrnukeppninni þar sem KR-ingarnir Aron Bjarki Jósepsson (varið) og Ástbjörn Þórðarson (varið) klikkuðu á sínum spyrnum.
Benóný Þórhallsson, markvörður Reynis, stóð sig mjög vel í leiknum en engu að síður skiptu Reynismenn um markmann fyrir vítakeppnina. Það reyndist klók ákvörðun því Rúnar Gissurarson varði tvær spyrnur KR-inga.
Birkir Freyr Sigurðsson, Einar Þór Kjartansson, Pétur Þór Jaidee og Magnús Einar Magnússon skoruðu úr öllum fjórum vítaspyrnum Reynis og tryggðu sínu liði sigurinn. Liðið spilar í 3. deild í sumar sem er oft kölluð D-deildin til aðgreiningar.
KR-ingarnir Atli Hrafn Andrason, Óliver Dagur Thorlacius og Ólafur Óskar Ómarsson skoruðu úr vítaspyrnum sínum.
KR-ingar notuðu tvö lið í leiknum eins og fram kom í flottri frétt um leikinn á heimasíðu KR.
Lið KR í fyrri hálfleik: Stefán Logi Magnússon - Morten Beck, Skúli Jón Friðgeirsson (f.), Aron Bjarki Jósepsson, Gunnar Þór Gunnarsson - Valtýr Már Michaelsson, Michael Præst Møller – Axel Sigurðarson, Óskar Örn Hauksson, Denis Fazlagic – Hólmbert Aron Friðjónsson.
Lið KR í seinni hálfleik: Sindri Snær Jensson - Ástbjörn Þórðarson, Kjartan Franklín Magnús, Aron Bjarki Jósepsson (fyrirliði), Bjarki Leósson – Axel Sigurðarson (Ólafur Óskar Ómarsson 67.), Ale Rivero, Óliver Dagur Thorlacius, Denis Fazlagic (Sindri Már Friðriksson 64.) – Viktor Lárusson, Atli Hrafn Andrason.
KR-ingar töpuðu í vítakeppni
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
