Íslenski boltinn

Gunnar Heiðar: Nóg af spjalli - nú þarf að gera eitthvað

Íþróttadeild 365 spáir ÍBV í níunda sæti Pepsi-deildar karla eins og kom fram í Fréttablaðinu og á vísi í morgun.

Sóknarmaðurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson ætlar liðinu stóra hluti í ár og koma liðinu aftur í hóp þeirra bestu, eins og hann lýsti í viðtali sem má sjá hér fyrir ofan.

„ÍBV hefur alltaf verið óskrifað blað síðustu ár. Það er alltaf talað um að þetta eigi að vera árið en því hefur aldrei verið fylgt eftir. Það er ekki nóg að spjalla um það, nú þarf að gera eitthvað,“ sagði Gunnar Heiðar í viðtalinu.

„Við fórum allir í naflaskoðun - leikmenn, þjálfarar og stjórnin. Við settumst niður, sögðum það sem við vildum segja og var það útkljáð á staðnum.“

„Þetta lítur mjög vel út. Það er allt önnur stemning í þessu. Þetta er eins og í gamla daga, þegar maður var að byrja í þessu. Þá vorum við á toppnum í einhver ár. Maður finnur að það er eitthvað að byrja.“

„Eitt af markmiðunum sem ég hafði þegar ég kom heim var að koma ÍBV aftur á þann stall sem félagið var á þá. Þar á klúbburinn að vera.“

Gunnar Heiðar lýsir því hvernig hann hefur haft aðkomu að liðinu undanfarin ár, áður en hann gekk svo aftur formlega til liðs við Eyjamenn.

„Ég held að við séum nú að byrja á vonandi einhverju stóru. Að það vindi síðan upp á sig og verði fínt. Hvort það gerist í ár eða síðar kemur svo bara í ljós.“

Viðtalið má sjá allt hér fyrir ofan en þar fer Gunnar Heiðar yfir væntingar Eyjamanna fyrir sumarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×