Fjölnir, FH, Stjarnan og Víkingur Ólafsvík eru öll með fullt hús stiga eftir tvo sigra í fyrstu tveimur umferðunum. KR náði aðeins jafntefli gegn nýliðum Þróttar og eru án sigurs. Blikar náðu í sín fyrstu stig gegn Fylki sem er án stiga líkt og ÍA og Valur.
Umfjöllun og viðtöl úr öllum sex leikjum umferðarinnar:
Fjölnir 2-0 ÍBV
Víkingur Ó. 2-1 Valur
Fylkir 1-2 Breiðablik
FH 2-1 ÍA
Þróttur 2-2 KR
Víkingur 1-2 Stjarnan

... Atla Viðar Björnsson
Dalvíkingurinn þarf ekki langan tíma til að skora og sýndi það enn og aftur gegn ÍA í Krikanum. Atli Viðar kom inn á í stöðunni 1-1 þegar fimm mínútur voru eftir. Og tveimur mínútum síðar lá boltinn í netinu. Atli Viðar skoraði einnig í síðustu umferð gegn Þrótti eftir að hafa komið inn á sem varamaður og mörkin í efstu deild eru því alls orðin 108.
... Ólsara
Víkingar unnu þrjá leiki af 22 þegar þeir voru í Pepsi-deildinni fyrir þremur árum. Eftir tvær umferðir í ár vantar Ólsara aðeins einn sigur til að jafna sigurfjöldann frá 2013. Lærisveinar Ejubs Purusevic eru greinilega reynslunni ríkari eftir dvölina í Pepsi-deildinni síðast og hafa litið vel út í fyrstu tveimur umferðunum. Króatinn Hrvoje Tokic skoraði bæði mörkin gegn og Val og er því kominn með 14 mörk í 10 deildarleikjum fyrir Víking.
... Ágúst Gylfason
Fjölnismenn hafa unnið báða leiki sína og erlendu leikmennirnir sem voru fengnir fyrir tímabilið virðast smellpassa inn í liðið. „Ég væri orðinn milljónamæringur ef þetta væri eitthvað lottó hjá okkur. Við leggjum mikla vinnu í leikmennina sem við fáum. Þetta eru vel valdir leikmenn og eru að sýna það í fyrstu tveimur leikjunum að þetta var ekkert lottó,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, eftir sigurinn á ÍBV. Ágúst og hans aðstoðarmenn hafa greinilega unnið heimavinnuna sína vel og það er að skila sér.

... Valsmenn
Lærisveinar Ólafs Jóhannessonar spiluðu vel á undirbúningstímabilinu en eru stigalausir eftir fyrstu tvær umferðirnar í Pepsi-deildinni. Skelfileg byrjun hjá bikarmeisturunum og ekki bætti úr skák að Ingvar Þór Kale þurfti að fara af velli vegna meiðsla eftir að hafa gefið mark. Í stað hans kom hinn 16 ára gamli Jón Freyr Eyþórsson sem leið heldur ekki vel út í sigurmarki Ólsara. Valsmenn þurfa að girða sig í brók ætli þeir sér að vera með í toppbaráttunni í sumar.
... Bjarna Guðjónsson
Það var mikil pressa á Bjarna fyrir tímabilið og hún hefur ekki minnkað eftir rýra uppskeru KR-inga í fyrstu tveimur umferðunum. KR varð að sætta sig við eitt stig gegn nýliðum Þróttar í gær og er þegar lent fjórum stigum á eftir FH og Stjörnunni. FH-ingar eru einmitt næstu mótherjar KR-inga en það verður gríðarlega mikið undir í þeim leik og Vesturbæingar mega engan veginn við tapi.
... Valdimar Pálsson
Valdimar sá um dómgæsluna í leik FH og ÍA í Krikanum og stóð sig að mörgu leyti ágætlega. Hann rak Steven Lennon réttilega af velli fyrir gróft brot en gerði stór mistök í aðdraganda jöfnunarmarks Skagamanna. Þórður Þorsteinn Þórðarson átti þá háa sendingu inn á teiginn, Gunnar Nielsen kom út úr markinu en missti af boltanum sem fór svo í höndina á Jóni Vilhelm Ákasyni áður en hann skoraði. Augljós hendi en Valdimar dæmdi ekki neitt.

*Í þriðja sinn á síðustu fimm tímabilum Fjölnis í Pepsi-deildinni er Garfarvogsliðið með fullt hús eftir tvær umferðir.
*Fjölnisliðið hefur unnið 5 af 6 heimaleikjum sínum í Pepsi-deildinni með Daniel Ivanovski í vörninni, fengið 16 af 18 stigum í boði og aðeins fengið á sig eitt mark.
*ÍBV hefur aðeins unnið 1 af síðustu 15 Pepsi-deildarleikjum liðsins utan Vestmannaeyja (1 sigur, 2 jafntefli, 12 töp).
*Fyrsta sinn í tíu ár sem Valsmenn tapa fyrstu tveimur leikjum sínum á Íslandsmótinu en þeir töpuðu á móti Breiðabliki (1-2) og FH (0-2) í fyrstu tveimur umferðunum 2006.
*Víkingsliðið var undir í 158 mínútur í fyrstu tveimur leikjunum 2013 en liðið hefur ekki enn lent undir á fyrstu 180 mínútunum í Pepsi-deildinni 2016.
*Ólafur Jóhannesson hefur ekki náð að stýra Val til sigurs í fyrstu tveimur umferðunum fyrstu tvö tímabil sín á Hlíðarenda (1 jafntefli, 3 töp) en FH vann 7 af 10 leikjum undir hans stjórn í fyrstu tveimur umferðunum 2003 til 2007 (2 jafntefli, 1 tap).
*Bjarni Guðjónsson hefur enn ekki náð að fagna sigri sem þjálfari í fyrstu tveimur umferðunum Pepsi-deildarinnar með Fram 2014 og KR 2015 og 2016 (4 jafntefli, 2 töp).
*Fyrsta sinn í 32 ár sem Þróttur nær í stig á heimavelli á móti KR í efstu deild.
*Þróttur var síðast ekki í fallsæti eftir tvær umferðir í úrvalsdeildinni sumarið 2005.
*Atli Viðar Björnsson hefur skorað 4 mörk í 3 leikjum á móti ÍA í Pepsi-deildinni undanfarin tvö tímabil.
*FH-ingar hafa unnið 6 deildarleiki í röð í Kaplakrika, fimm síðustu í fyrra og fyrsta í ár.
*FH-liðið hefur unnið alla fjóra leiki sína í Pepsi-deildinni þar sem Bjarni Þór Viðarsson hefur komist á blað.
*Fylkisliðið hefur ekki unnið leik í fyrstu tveimur umferðunum í fimm ár (2011).
*Albert Brynjar Ingason hefur skorað í öllum þremur leikjum Fylkis á móti Breiðabliki síðustu tvö tímabil.
*Damir Muminovic hefur tryggt Blikum þrjú stig í 2 af síðustu 5 leikjum sínum í Pepsi-deildinni.

Tómas Þór Þórðarson á Fjölnisvelli:
„Dómari leiksins er Akureyringurinn Þóroddur Hjaltalín sem ber ekki Jr. lengur fyrir aftan nafnið sitt. Hann er eins og Siggi litli Sörensen í Fóstbræðrum; ekki lítill lengur. Honum til aðstoðar eru Frosti Viðar Gunnarsson og Eðvarð Eðvarðsson. Á skiltinu er verkfræðingurinn Vilhjálmur Alvar Þórarinsson.“
Smári Jökull Jónsson á Þróttaravelli:
„KR-ingar vilja fá víti eftir að Denis fellur í teignum en Guðmundur Ársæll dæmir ekkert. „Why should he dive?“ segir Bjarni Guðjónsson við Gregg Ryder þjálfara Þróttar hér á hliðarlínunni.“
Kristinn Páll Teitsson á Ólafsvíkurvelli:
„Þá tek ég ímyndaðan hatt að ofan fyrir vallarstarfsmönnum Víkings. Völlurinn lítur út fyrir að vera í toppstandi í annarri umferð.“
Hæstu og lægstu einkunnir umferðarinnar:
Hrvoje Tokic, Víking Ó. - 8
Damir Muminovic, Breiðabliki - 8
Arnþór Ari Atlason, Breiðabliki - 8
Martin Lund Pedersen, Fjölni - 8
Andri Fannar Stefánsson, Val - 3
Kristian Larsen, Þrótti - 3
Umræðan á #pepsi365
Shit hvað ég er pirraður eftir þennan gamla leik. Ég var lortaður. Takk fyrir ekkert @HoddiMagnusson@hjorturh@hjorvarhaflida#pepsi365
— Jón Jónsson (@jonjonssonmusic) May 8, 2016
Hitti Daniel Bamberg í barnaafmæli. Ég sagði " Go easy on the hotdog, you are in my fantasyteam". Hann hló. #pepsi365
— Jóhann Gunnar Einars (@Joigunnar) May 7, 2016
Nú er búið að hlaða í gott lið að Hlíðarenda. Óli Jó buinn að tapa fyrstu 2 leikjunum. Hvenær fer að hitna undir stólnum fræga? #pepsi365
— Sveinn Arnarsson (@Sveinn_A) May 8, 2016
Róbert er sjóðheitur í þessarri kamótreyju. Engu líkara en hann sé á leið á Hip Hop ball á Prikinu #Pepsi365
— Maggi Peran (@maggiperan) May 8, 2016
Elska þegar Halldór Orri er afskrifaður. Svarar svo með þessari slummu! Einn allra besti leikmaður deildarinnar #Fact#Pepsi365
— Óttar K. Bjarnason (@ottar09) May 8, 2016
Er Morten Olsen ekki laus fyrir KR-ing? Nú liggja Danir í því! #fotboltinet#pepsi365
— Styrmir Sigurðsson (@StySig) May 8, 2016
Þetta er hrammar, hendurnar á Kerr. Maðurinn er tröllvaxinn. #pepsi365#fotboltinet
— Rögnvaldur Már (@roggim) May 8, 2016
#pepsi365 a Atli Viðar Björnsson möguleika á metinu? 23 mörk og nóg eftir hjá kallinum?
— saevar petursson (@saevarp) May 8, 2016
Kale gargaði nafnið sitt svo glumdi um allt Snæfellsnesið. Alls ekki neitt sem Orri gerir rangt! #pepsi365#getyourfactsright#sérfræðingar
— Birkir Björnsson (@Birkir14) May 8, 2016
„Ódýr mörk sem við fáum okkur.. svo skorum við úr víti.. gott mark“. Vítið kom eftir brot á vítateigshorni! Rosa mark! #kr#pepsi365
— Gylfi Steinn (@gylfisteinn) May 8, 2016
Atli Viðar er meiri Ole Gunnar Solskjær en sjálfur Ole Gunnar Solskjær #pepsi365
— Stefán Árni Pálsson (@stebboinn) May 8, 2016