Íslenski boltinn

Atli Viðar: Er orðinn mjög góður í þessum svörum

Ingvi Þór Sæmundsson í Kaplakrika skrifar
Atli Viðar skoraði sitt 108. mark í efstu deild í kvöld.
Atli Viðar skoraði sitt 108. mark í efstu deild í kvöld. vísir/anton
Atli Viðar Björnsson sýndi enn og aftur hvers hann er megnugur þegar hann tryggði FH sigur á ÍA tveimur mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður.

„Ég náði að koma mér á réttan stað og hirða frákast,“ sagði Atli Viðar eftir leikinn í kvöld.

„Ég fékk bara þau skilaboð að reyna að klára leikinn og kreista fram mark sem þurfti til að vinna hann.“

Mark Atla Viðars kom aðeins fimm mínútum eftir að Jón Vilhelm Ákason jafnaði metin fyrir ÍA. Dalvíkingurinn var að vonum ánægður með hvernig FH-ingar brugðust við marki Skagamanna.

„Við erum sáttir með að vinna leikinn og hafa kreist fram sigur úr því sem komið var. En mér fannst óþarfi að gera þetta svona tæpt, við vorum með öll völd á vellinum þangað til við misstum mann af velli. Þegar þú ert bara 1-0 yfir getur allt gerst,“ sagði Atli Viðar og vísaði þar til rauða spjaldsins sem Steven Lennon fékk.

Atli Viðar hefur byrjað tímabilið af krafti og skorað í báðum leikjum FH eftir að hafa komið inn á sem varamaður. En vonast hann ekki til þess að byrja næsta leik gegn KR, sérstaklega í ljósi þess að Lennon verður í banni?

„Ég vonast alltaf eftir því að spila sem flestar mínútur. Það verður bara að koma í ljós hversu margar þær verða á fimmtudaginn,“ sagði Atli Viðar pólitískur í svörum.

„Ég er orðinn mjög góður í þessum svörum,“ sagði markaskorarinn hlæjandi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×