Íslenski boltinn

Eyjólfur: Það eru ekki 11 menn að fara að vinna þetta mót

Ingvi Þór Sæmundsson á Samsung-vellinum í Garðabæ skrifar
Eyjólfur á ferðinni í kvöld.
Eyjólfur á ferðinni í kvöld. vísir/ernir
„Þetta var mjög góð tilfinning, bara að fá að spila aftur. Það er langt síðan ég spilaði síðast fótbolta og það er frábært að byrja á sigri,“ sagði Eyjólfur Héðinsson, leikmaður Stjörnunnar, eftir sigurinn á Fylki í kvöld.

Þetta var fyrsti leikur Eyjólfs á Íslandi frá 2006 en hann sneri aftur heim í vetur eftir erfið ár þar á undan vegna meiðsla. Hann kvaðst nokkuð sáttur með sitt framlag í leiknum í kvöld.

„Ég var mjög ánægður. Ég er ekki búinn að spila marga leiki upp á síðkastið og ekki æft mikið en mér fannst mér og liðinu ganga vel. Við vorum flottir á löngum köflum og þetta var sanngjarn sigur.“

Eins og áður sagði hefur Eyjólfur glímt við erfið meiðsli undanfarin ár og þ.a.l. lítið spilað. Hann segir að leikformið sé því eðlilega ekki það besta.

„Líkamlegt form er ágætt en leikformið er ekki mikið,“ sagði Eyjólfur sem var ánægður með framlag varamanna Stjörnunnar í kvöld.

„Okkar styrkur kom í ljós í dag. Breiddin er mikil og varamennirnir kláruðu leikinn. Við þurfum bara að nýta okkur þetta í sumar, það eru ekki 11 menn að fara að vinna þetta mót. Við þurfum á öllum að halda,“ sagði Eyjólfur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×