Íslenski boltinn

Dúndur-bekkur Stjörnunnar hefur skorað helming marka liðsins

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Veigar Páll Gunnarsson skoraði tvö mörk af bekknum gegn Fylki.
Veigar Páll Gunnarsson skoraði tvö mörk af bekknum gegn Fylki. vísir/ernir
Stjarnan er á toppnum í Pepsi-deild karla eftir þrjár umferðir en liðið er með fullt hús eða níu stig eftir þrjá leiki.

Stjörnumenn unnu nýliða Þróttar, 6-0, í þriðju umferðinni í gærkvöldi þar sem Guðjón Baldvinsson var tveimur sekúndum frá því að skora fljótasta markið í sögu efstu deildar.

Sjá einnig:Þróttur byrjaði með boltann en Guðjón skoraði eftir níu sekúndur | Sjáðu markið

Varamannabekkur Stjörnumanna hefur verið á milli tannanna á fótboltaáhugamönnum og það réttilega. Á bekk liðsins eru margir leikmenn sem myndu ganga inn í önnur lið deildarinnar. Svo sannarlega lúxusvandamál fyrir Rúnar Pál að velja í liðið.

Þessi dúndurbekkur er að skila sínu því varamenn Stjörnunnar eru búnir að skora fimm af tíu mörkum liðsins í fyrstu þremur umferðunum og tryggja liðinu sex af níu stigum þess.

Veigar Páll Gunnarsson kom inn á sem varamaður í stöðunni 0-0 gegn Fylki í fyrstu umferðinni og skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri. Halldór Orri Björnsson skoraði svo sigurmarkið, 2-1, gegn Víkingi í annarri umferð deildarinnar.

Stjörnumenn voru búnir að afgreiða Þrótt þegar Jeppe Hansen kom inn á sem varamaður í gærkvöldi en danski framherjinn gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö mörk nánast á sömu mínútunni í 6-0 sigrinum. Það voru mörk númer fjögur og fimm hjá varamönnum Stjörnunnar við upphaf Íslandsmótsins.

Stjarnan er aðeins búin að fá á sig eitt mark og er með markatöluna 10-1 eftir þrjár umferðir. Liðið er það eina með fullt hús og mætir KR í stórleik fjórðu umferðar á þriðjudaginn.

Aðeins einu sinni áður hefur Stjarnan verið með fullt hús í Pepsi-deildinni en það var sumarið 2009 þegar liðið var nýliði í deildinni. Liðið hefur nú unnið sjö leiki í röð í Pepsi-deildinni; síðustu fjóra í fyrra og fyrstu þrjá í ár.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×