Íslenski boltinn

Fylkir aldrei byrjað verr í efstu deild

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir/anton brink
Fylkir tapaði þriðja leiknum í röð í Pepsi-deild karla í fótbolta í gærkvöldi þegar liðið heimsótti Val á gervigrasið að Hlíðarenda.

Valur vann leikinn, 2-0, með mörkum Guðjóns Péturs Lýðssonar og Hauks Páls Sigurðssonar. Þetta var jafnframt fyrsti sigur Valsmanna í Pepsi-deildinni þetta sumarið.

Fylkir tapaði fyrsta leik mótsins á útivelli gegn Stjörnunni, 2-0, og tapaði svo gegn Breiðabliki, 2-1, á heimavelli í annarri umferðinni.

Þessi byrjun Fylkis er sú versta hjá Árbæjarfélaginu í efstu deild í sögu þess. Aldrei áður hefur Fylkir tapað fyrstu þremur leikjum sínum í efstu deild á Íslandsmótinu.

Tvisvar sinnum áður hefur liðið tapað fyrstu tveimur leikjunum (2008 og 2014) en þá vann það þriðja leik mótsins. Nú er Fylkisliðið búið að tapa fyrstu þremur sem fyrr segir.

Fylkir er að spila 20. tímabilið í efstu deild í sögu félagsins. Það dvaldi í eitt tímabil uppi sumrin 1989, 1993 og 1996 en hefur svo verið samfleytt í efstu deild frá 2000. Aðeins KR hefur verið lengur samfleytt í efstu deild.

Fylkir mætir ÍBV á heimavelli í næstu umferð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×