„Þetta er fyrsti leikurinn sem við vinnum síðan í byrjun apríl svo þetta er gríðarlega sætt,“ sagði Ragnar Bragi Sveinsson að leik loknum. Ragnar bar fyrirliðabandið í dag og skilaði marki og stoðsendingu úr holunni.
„Við ætluðum að fara bak við þá og hlaupa svolítið í kringum þá og það virkaði vel. Bæði mörkin komu með því að fara upp hægri kanntinn. Uppeggið virkaði að mestu leiti, liðið spilaði vel og sigldi þessu heim í restina.“
Ragnar fór út af þegar tæplega hálftími lifði leiks en skömmu áður hafði hann fengið högg á sig og haltrað um stund. Hann segist þó ekki vera að bætast á meiðslalista Fylkis. „Þetta er ekki neitt, bara smá bólga sem þarf að kæla. Það er leikur í deild á mánudaginn og ég ákvað að vera skynsamur.“
Í deildinni eru Fylkismenn enn án sigurs en Ragnar vonar að leikurinn í dag gæti orðið vendipunktur á þeirra sumri. „Við ætlum að taka sigurinn með í næsta leik og byggja ofan á þetta. Það er gott að losa um stífluna og loksins fórum við að láta boltann ganga og gera það sem þjálfarinn segir okkur að gera. Það hlýtur að vera að þetta spyrni okkur frá botninum.“
Ragnar Bragi: Fórum loksins að gera það sem þjálfarinn biður um

Tengdar fréttir

Fimm Pepsi-deildarlið komin áfram í bikarnum | Úrslit kvöldsins
Pepsi-deildarliðin ÍBV, ÍA, Þróttur R., Fylkir og Víkingur R. tryggðu sér öll í kvöld sæti í sextán liða úrslitum Borgunarbikarsins en KR-ingar þurftu að fara í framlengingu á móti Selfossi.

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Keflavík - Fylkir 1-2 | Fylkismenn sóttu sigur
Fylkir verður í pottinum á föstudag þegar dregið verður í Borgunarbikarnum eftir sigur gegn Keflavík.