„Að sjálfsögðu erum við sáttir. Það leið öllum vel inni í klefa núna,“ sagðir sigurreifur Hermann Hreiðarsson eftir 2-1 sigur Fylkis á Keflavík suður með sjó. Leikurinn var hluti af 32-liða úrslitum Borgunarbikarsins og úrslitin þýða að Árbæingar verða í pottinum þegar dregið verður á föstudag. Fyrir leik hafði Fylkis ekki unnið leik það sem af er sumri og úrslitin því kærkomin.
„Mér fannst við vera heldur sterkari í fyrri. Við áttum stórskemmtilegar sóknir, skoruðum frábær mörk og fengum þrjú flott færi. Það voru gæði í okkar aðgerðum. Svo settu þeir aukna pressu á okkur með vindinum í síðari hálfleik, við náðum engum takti við leikinn en stóðum þetta af okkur.“
Mark Keflavíkur kom út vítaspyrnu í uppbótartíma. Þeir höfðu átt skot að marki sem Ólafur Íshólm varði út í teiginn og síðan fylgdi annað skot í rammann. Skyndilega var búið að flauta vítaspyrnu og enginn virtist vita neitt hvað hafði gerst.
„Ég er búinn að spyrja alla í klefanum og það veit enginn neitt. Þú verður eiginlega að taka dómarann í viðtal og spyrja hann á hvað hann var að dæma. Hann verður að gefa svarið,“ sagði Hermann og brosti út í annað.
Eyjamaðurinn telur að sigurinn muni gefa sínum strákum það sem þarf til að spyrna sér frá botni Pepsi-deildarinnar. „Við erum í þessu til að vinna leiki. Að geta fagnað í klefanum eftir leik er það sem telur. Svo verðum við líka í hattinum í bikarnum og erum spenntir fyrir því,“ sagði Hermann að lokum.

