Íslenski boltinn

Ólafur: Víkingar fengu allan Gary Martin pakkann í Eyjum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Víkingar unnu sinn fyrsta sigur í Pepsi-deild karla í fótbolta þetta sumarið á sunnudaginn þegar Fossvogsliðið lagði ÍBV, 3-0, í Vestmannaeyjum.

Víkingar höfðu fyrir leikinn aldrei áður unnið þriggja marka sigur í Eyjum og er þetta stærsta tap ÍBV á heimavelli í 20 ár eða síðan liðið tapaði 4-0 fyrir KR sumarið 1996.

Gary Martin var maður leiksins þrátt fyrir að brenna af vítaspyrnu en hann skoraði sitt fyrsta mark í sumar og lagði upp annað fyrir Viktor Jónsson. En hann gerði meira en það.

„Það hefur verið lýst eftir mörkum frá Gary. Hann klikkar á víti í leiknum og klikkar á góðu færi áður en hann skorar,“ sagði Ólafur Kristjánsson um Gary í Pepsi-mörkunum á Stöð 2 Sport HD í gærkvöldi.  „Mér finnst það sterkt hjá Gary Martin að nýta þetta þrönga færi og líka þegar hann samgleðst félögum sínum því það viljum við sjá.“

„Svo leggur hann líka upp mark fyrir Viktor en lykilatriðið var að Gary var inn í leiknum allan tímann. Mér hefur fundist hann detta svolítið út úr leikjunum undanfarið. Þarna var Gary allur pakkinn. Hann var góður, góður fyrir liðið og góður fyrir sig. Það er gott fyrir Víkinga,“ sagði Ólafur og Arnar Gunnlaugsson bætti við:

„Víkingar voru virkilega öflugir og sterkir í þessum leik. Víkingarnir hafa verið að spila vel í síðustu fjórum leikjum þó þeir hafi ekki fengið mörg stig. En í þessum leik sýndu þeir allar sínar bestu hliðar,“ sagði Arnar Gunnlaugsson.

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×