Íslenski boltinn

Ólafur kvaddi Pepsi-mörkin með frábærri greiningu á vandamálum KR

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stuttum ferli Ólafs Kristjánssonar í Pepsi-mörkunum lauk í gærkvöldi en hann getur ekki haldið áfram í þættinum þar sem hann var í gær formlega ráðinn næsti þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins Randers eins og Vísir greindi frá.

Þetta verður annað danska félagið sem Ólafur stýrir en honum var fyrr á árinu sagt upp störfum hjá Nordsjælland þegar nýr eigendahópur tók við félaginu og réð þjálfarann sem Ólafur leysti af hólmi.

Sjá einnig:Þarf núna ekki að sjá á eftir þeim bestu fara áður en þeir ná að blómstra

Ólafur kvaddi Pepsi-mörkin með stæl og mundaði teiknitölvuna þegar hann greindi nákvæmlega það sem KR-liðið er að gera vel og illa. KR er í áttunda sæti eftir fimm umferðir með sex stig, aðeins búið að vinna einn leik og ekki búið að skora nema fjögur mörk. Til viðmiðs má benda á að Hrvoje Tokic, framherji nýliða Ólafsvíkur, hefur skorað fleiri mörk en allt KR-liðið til samans.

Ólafur er ánægður með margt í uppspili KR sem var auðvitað rænt stigi í tapleiknum gegn Breiðabliki þegar fáránleg rangstaða var dæmd á Indriða Sigurðsson þegar hann skoraði jöfnunarmarkið. Ólafi finnst þó miðjumenn liðsins vera of líkir og átti Breiðablik auðvelt með að verjast vesturbæingum síðustu 20 mínúturnar þegar uppspil KR var ekki nógu gott.

Þessa fimm mínútna frábæru greiningu á vandamálum KR má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×