Þrír stórir sigrar unnust í gærkvöldi en alls voru skoruð þrettán mörk í þremur leikjum og svo eitt í þeim fjórða. Víkingar unnu sinn fyrsta sigur á tímabilinu þegar þeir kafsigldu ÍBV í Vestmannaeyjum, 3-0, en þar skoraði Gary Martin sitt fyrsta mark fyrir Fossvogsliðið í Pepsi-deildinni.
Valsmenn tóku nýliða Þróttar í kennslustund á Valsvellinum, 4-1, þar sem heimamenn komust í 4-0 á fyrstu 51 mínútu leiksins. Þá tryggði Höskuldur Gunnlaugsson Breiðabliki flottan 1-0 sigur á KR sem getur orðið sex til sjö stigum á eftir toppliðunum í kvöld.
Ólsurum var svo kippt niður á jörðina með látum í Grafarvogi þar sem Fjölnir vann nýliðana, 5-1. Flottasta mark gærkvöldsins var skorað þar en bakvörðurinn Viðar Ari Jónsson skoraði algjörlega frábært mark.
Öll mörkin má sjá hér að neðan en farið verður ítarlega yfir alla leikina í Pepsi-mörkunum á Stöð 2 Sport HD klukkan 22.00 í kvöld, beint eftir beina útsendingu á leik Stjörnunnar og FH. Upphitun fyrir hann hefst klukkan 19.30 á Sport HD.