Ágúst Jóhannsson, landsliðsþjálfari kvenna í handbolta, lætur af störfum eftir undankeppni Evrópumótsins en stelpurnar okkar eiga tvo leiki eftir sem spilaðir verða á næstu sjö dögum.
Ágúst hefur þjálfað liðið í hálft sjötta ár og komið því tvisvar sinnum á stórmót. Ágúst kom stelpunum á HM 2011 þar sem liðið hafnaði í tólfta sæti og á EM 2012 þar sem stelpurnar urðu í fimmtánda sæti.
Kvennalandsliðið er í erfiðri stöðu í undankeppni EM 2016. Liðið er með tvö stig í þriðja sæti síns riðils og á eftir leiki gegn bestu liðunum í riðlinum; Frakklandi og Þýskalandi.
Stelpurnar eru sem stendur með annan besta árangur þeirra liða sem eru í þriðja sæti en eitt þeirra fer á Evrópumótið í Svíþjóð. Ísland þarf samt að ná í einhver stig í næstu tveimur leikjum en þær mæta Frakklandi hér heima á morgun.
Ágúst sagði á blaðamannafundi landsliðsins í dag að hann vonaðist til að gefa handboltanum þá kveðjugjöf að koma stelpunum á Evrópumótið í desember.
Guðmundur Ólafsson, formaður HSÍ, sagði á sama fundi að það verði ekki langt þar til eftirmaður Ágústar verður ráðinn.
