Veiði

197 laxar gengnir í gegnum teljarann í Langá á Mýrum

Karl Lúðvíksson skrifar
197 laxar eru gengnir í gegnum teljarann í fossinum Skugga.
197 laxar eru gengnir í gegnum teljarann í fossinum Skugga. Mynd: SVFR
Það er óhætt að segja að laxveiðin hafi byrjað með hvelli í sumar og það sér ekki ennþá fyrir endan á þessu því fleiri ár eiga eftir að opna og staðan í þeim flestum er mjög góð.

Í þessu sambandi má t.d. nefna Langá á Mýrum en hún hefur hingað til verið þekkt sem hreinræktuð síðsumarsá með fallegum eins árs laxi.  Nú ber svo við að staðan í teljaranum í Langá var komin í 197 laxa að morgni 14. júní þar af gengu 50 laxar í gegnum teljarann 13. júní sem er bara eins og á góðum degi í byrjun júlí.  Ekki nóg með það heldur eru af þessum 197 löxum 94 stórlaxar en það sést með stafrænum myndum sem teljarinn tekur af hverjum einasta laxi og þarna eru margir laxar allt upp í 95-96 sm langir.  Þetta er mesta ganga af stórlaxi um Skugga frá upphafi mælinga en mesta gangan áður var 2013 sem þá taldi 78 laxa.  Veiðin sumarið 2013 var 2815 laxar.

Smálaxinn samkvæmt teljaranum er einnig vænn og það er mjög athyglisvert að sjá svona sterkar smálaxagöngur á þessum tíma.  Þetta háa hlutfall stórlaxa bendir til að afföll stórlaxa í hafi séu að minnka og eins að ástandið á fæðuslóð laxsins í hafi sé mjög gott.  Ennþá er tæp vika í að Langá opni en haldi þessi gangur áfram er ljóst að það má reikna með 300-400 löxum í ánni fyrir ofan teljara og það breytir miklu og dreifir veiðiálaginu um ánna.










×