Veiði

11 laxa opnun á Jöklusvæðinu

Karl Lúðvíksson skrifar
Stórlax úr opnun Jöklu.
Stórlax úr opnun Jöklu. Mynd: Strengir FB
Jökla og árnar sem tilheyra því svæði opnuðu fyrir veiðimönnum 1. júlí og veiðin var langt umfram væntingar.

Svæðið hefur yfirleitt ekki farið af stað fyrr en um miðjan júlí en nú ber svo við að til dæmis í Jöklu sjálfri er gengið töluvert af laxi og nokkrum dögum fyrir opnun lágu 10-15 laxar á Hólaflúð sem er ofan við veiðistaðinn Steinboga.  Hann var áður ógengur en eftir að það var sprengd rás í hann kemst laxinn upp og það gerir hann heldur betur.  Það komu samtals 11 laxar á land og það virtist vera líf víða.  Svæðið saman stendur af Jöklu, Kaldá, Fossá, Laxá og Fögruhlíðará og hver áin hefur algjörlega sitt veiðieinkenni.

Að auki við aukna laxgengd á svæðinu er mikil sjóbleikjuveiði í ósum Fögruhlíðarár og eins í skilunum þar sem Kaldá rennur út í Jöklu.  Þar má á góðum degi ná í mjög vænar bleikjur á þeim veiðistað og sem dæmi er ekkert óalgengt að sjá 4-6 punda bleikjur koma þarna á land.  Önnur svæði Strengja hafa verið að koma vel út en opnunin í Hrútafjarðará er að skila um 20 löxum hingað til þar af nokkrum 90+ löxum.  Breiðdalsá opnaði líka 1. júlí og þar eru komnir 10 laxar á land þrátt fyrir litla ástundun vegna vatnavaxta en það er sama sagan þar eins og víðar, laxinn er mun fyrr á ferðinni en venjulega.






×