Íslenski boltinn

Tryggvi Guðmundsson segir Böðvari að „hætta þessum stælum“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tryggvi Guðmundsson, markahæsti leikmaður efstu deildar frá upphafi, er ekki alveg nógu hrifinn af „stælunum“ í Böðvari Böðvarssyni, bakverði Íslandsmeistara FH, eins og hann orðar það sjálfur.

Tryggvi gerir upp leik ÍBV og FH í Pepsi-deild karla í fótbolta í gær á fótbolti.net en þar töpuðu Íslandsmeistararnir stigum annan leikinn í röð er liðin skildu jöfn, 1-1.

Svolítill hiti var í leiknum, en í fyrri hálfleik tæklaði Sindri Snær Magnússon Englendinginn Sam Hewson hressilega. Böðvar Böðvarsson var fyrstur á vettvang og ýtti við Sindra og uppskar gult spjald.

„Ég vil meina að Sindri Snær hafi svolítið byrjað þetta en svo verður Böðvar Böðvarsson að hætta þessum stælum,“ segir Tryggvi við fótbolti.net.

Böðvar „fiskaði“ Serbann Vladimir Tufegdzic í Víkingi út af í síðasta leik FH. Bakvörðurinn ýtti þá nokkrum sinnum við Serbanum sem á endanum brást illur við og gaf Böðvari olnbogaskot í magann. Fyrir það fékk Tufegdzic rautt spjald.

„Böðvar fiskaði Tufa í Víkingi R. af velli í síðasta leik með því að ýta honum þrívegis, svo fær hann nett olnbogaskot og kvartar eins og hann sé saklausasti maður í heimi,“ segur Tryggvi.

„Hann lenti í líku atviki í gær en ég var ánægður með Davíð Þór Viðarsson sem hljóp til Bödda og eiginlega bara skammaði hann og sagði honum að hætta þessari vitleysu. Böðvar er góður í fótbolta og ég myndi halda að hann myndi ekki vilja fá svona leiðindastimpil á sig,“ segir Tryggvi Guðmundsson.

Tæklinguna og lætin má sjá í spilaranum hér að ofan en allt verður vitlaust eftir 33 sekúndur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×