Katar varð í nótt síðasta liðið til að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum í handbolta karla á Ólympíuleikunum í Ríó.
Katarbúar unnu þá fjögurra marka sigur á Argentínu, 22-18, í leik þar sem jafntefli hefði nægt til að koma þeim í átta liða úrslitin.
Lið Katar mætir Degi Sigurðssyni og lærisveinum hans í þýska landsliðinu í átta liða úrslitunum á miðvikudaginn kemur.
Katarliðið var með frumkvæðið allan tímann, komst strax í 3-0 og var þremur mörkum yfir í hálfleik, 12-9.
Þýska liðið vann B-riðilinn og mætir því liðinu í fjórða sæti í A-riðli sem er Katar eftir þennan sigur á Argentínu.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska liðsins, og Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska liðsins, geta nú ekki mæst fyrr en í úrslitaleiknum. Vinni Þjóðverjar í átta liða úrslitum mæta þeir annaðhvort Frakklandi eða Brasilíu. Danir mæta annaðhvort Króatíu eða Póllandi slái þeir út Slóveníu.
Átta liða úrslitin í handbolta karla:
Króatía - Pólland
Slóvenía - Danmörk
Frakkland - Brasilía
Þýskaland - Katar
Strákarnir hans Dags mæta Katar í átta liða úrslitunum | Þessi lið mætast
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
