Veiði

Laxá í Nesi raðar inn stórlöxum

Karl Lúðvíksson skrifar
Örn Kjartansson með 110 laxinn úr Laxá í Nesi
Örn Kjartansson með 110 laxinn úr Laxá í Nesi
Það er greinilega ljóst á veiðifregnum síðustu daga að stóru hængarnir eru farnir á stjá og þeir eru sífellt grimmari í flugur veiðimanna.

Í fyrra dag kom upp 112 sm hængur af svæðum Laxárfélagsins og einn 110 sm sama dag og svo í gær bættist við langann lista stórlaxa á Nessvæðinu þegar 110 sm laxi var landað í Höfðahyl.  Sá mældist 56 sm í ummáli og það er líklega fiskur sem teygir sig nálægt 30 pundum.  Í gærkvöldi bættist svo einn stórlax við þegar Nökkvi Svavarsson tók 96 sm fisk í í SKerflúð á flugu sem hann hannaði sjálfur.

Þetta stórlaxasumar í Laxá í Aðaldal hefur auðvitað mikil áhrif á eftirspurn eftir lausum dögum í ánna en eftirspurnin er víst það mikil að það komast færri að en vilja.  Það er ennnþá nóg eftir af veiðitímanum í Laxá svo það eiga líklega fleiri fréttir af stórlöxum eftir að detta inn.

Það má skjóta að sögu af ágætum veiðimanni sem setti í fimm laxa í einum og sama veiðistaðnum í Laxá í Nesi á sama deginum og var hann að veiða svæðið í annað sinn.  Fyrri ferðin hans bar ekki árangur en hann setti ekki í fisk í þeirri ferð.  Svæðið nær að vísu svo mikilli festu í hjarta hans að hann er mættur aftur að ári.  Þegar hann var við bakkann fyrir stuttu síðan setti hann í fimm laxa sem hann taldi alla væna en ekki þannig að hann væri nálægt 100 sm fiskum.  Þrátt fyrir nokkuð langar baráttur missti hann alla laxana nema einn.  Sá var að sögn veiðimannsins greinilega mun minni því hann tók ekki nærri því jafn mikið í og hinir og virkaði bara mun léttari.  Hann taldi því að þarna væri eins árs lax á færinu og tók bara fast á honum og snaraði honum fljótlega á bakkann.  Hann var 90 sm. 

 

 






×