Pétur fór ansi illa með nýliðana í þessum mikilvæga fallslag en í leiknum átti Pétur fjórar vafasamar ákvarðanir eins og fjallað var um í Pepsi-mörkunum og skrifað um á Vísi.
Dómarinn gaf Fylki vítaspyrnu í seinni hálfleik sem Hjörvar Hafliðason, sérfræðingur Pepsi-markanna, sagði vera „mjög soft“, en Ólsarar voru svo hlunnfarnir um tvær augljósar vítaspyrnur áður en Pétur gaf Fylki aðra umdeilda.
Pepsi-mörkin: Vafasamur Pétur í Árbænum
Arnar Halldórsson, myndatökumaður Stöð 2 Sport, var að taka upp efni á leiknum frá öðru sjónarhorni fyrir Pepsi Max-vélina og var að mynda fögnuð Fylkismanna eftir leik þegar hann kom auga á Nordenberg sem gekk að Arnari.
„Spurðu þá hvað þeir borguðu dómaranum. Guð minn góður. Þú hlýtur að sjá þetta,“ sagði Svíinn og benti í átt að Fylkismönnunum sem voru uppteknir við að fagna.
Ejub Purisevic, þjálfari Ólsara, hefur verið duglegur að kvarta undan dómurum deildarinnar í sumar en hann var svo beygður eftir þessa frammistöðu Péturs að hann eiginlega gat ekki meir.
„Ég ætla ekki að ræða þetta, þetta er orðið fyndið. Ég hef reynt einu sinni eða tvisvar og benda á og það varð allt vitlaust. Ég er sorgmæddur en ætla ekki að ræða þessi mál,“ sagði Ejub við Vísi eftir leikinn.
Pepsi Max-vélina má sjá í spilaranum hér að ofan en atvikið með Pontus Nordenberg kemur eftir fimm mínútur og fimm sekúndur.