Haukar byrja tímabilið af krafti í Olís-deild kvenna en Haukakonur byrjuðu tímabilið á að taka tvö stig á útivelli gegn Stjörnunni.
Stjörnunni er spáð Íslandsmeistaratitlinum í vetur á meðan Haukum er spáð 4. sæti en gestirnir úr Hafnarfirðinum náðu að snúa leiknum sér í hag í seinni hálfleik.
Stjarnan leiddi 12-7 í hálfleik en í seinni hálfleik var allt annað að sjá til Haukaliðsins. Náðu þær að snúa leiknum sér í hag og tryggja sér sigur 21-20.
Maria Ines Da Silva Pereira var atkvæðamest í liði Hauka með 7 mörk en Ragnheiður Ragnarsdóttir bætti við fjórum mörkum. Í liði Stjörnunnar var Hanna Guðrún Stefánsdóttir markahæst með fimm mörk.
Á Selfossi höfðu Framkonur betur gegn Selfyssingum 28-24 eftir að hafa leitt með fimm mörkum í hálfleik.
Fram leiddi í hálfleik 15-10 og var sigurinn ekki í hættu í seinni hálfleik þrátt fyrir að Selfyssingum tækist að saxa aðeins á forskotið.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var eins og oft áður atkvæðamest í liði Selfyssinga með sjö mörk en í liði Fram var Ragnheiður Júlíusdóttir markahæst með sjö mörk.

