Strákarnir eru báðir hluti af stærri hópi sem kallar sig Mið-Ísland en þeir hafa slegið í gegn síðastliðin ár. Hver ætli sé ástæðan fyrir því að þeir eru aðeins tveir að leggja land undir fót?
„Við höfum báðir uppistand að atvinnu og erum yfirleitt að mæta og taka 15-20 mínútur hverju sinni þegar við erum að skemmta á hvers kyns viðburðum. Þess á milli erum við að sýna með bræðrum okkar úr Mið-Íslandi, sem ég held að sé óhætt að segja að sé það skemmtilegasta sem við gerum. Okkur langaði hins vegar að prófa að gera tveggja manna sýningu, þar sem mæðir meira á hvorum okkar og við tökum í raun hvor sinn hálfleikinn af uppistandi,“ segir Björn Bragi.

Grínhópurinn Mið-Ísland er þó hvergi nærri hættur. Þvert á móti verður hópurinn með sýningu í Hofi á Akureyri 30. september og tilraunasýningu í Þjóðleikhúskjallaranum í byrjun október, þar sem strákarnir prófa nýtt efni fyrir komandi vetur.
Sýning þeirra Björns Braga og Ara hefur fengið heitið Á tæpasta vaði og er um að ræða tæplega tveggja tíma sýningu með hléi. „Við verðum með fullt af nýju efni í bland við eitthvað eldra sem við höfum ekki flutt áður á þeim stöðum sem við ætlum að sýna á,“ segir Björn Bragi.
Áætlað er að fara af stað í byrjun október og mun fyrsti áfangastaðurinn vera Þorlákshöfn.„Það er alltaf sérstök stemning þegar við förum út fyrir borgarmörkin og höldum sýningar. Við hlökkum mikið til,“ segir Björn Bragi.