Skammsýni Magnús Guðmundsson skrifar 3. október 2016 07:00 Við sem erum komin á miðjan aldur eða eldri munum þá tíma þegar refa- og minkabúskapur átti að koma íslenskum sveitum til bjargar. Íslendingar gátu vart beðið þess dags þegar helmingur Hollywood-stjarna sveipaði sig íslenskum ref og hinn helmingurinn mink. En Brigitte Bardot náði eyrum heimsins, búin fóru mörg hver á hausinn en minkurinn fjölgaði sér í villtri íslenskri náttúru. Þó svo mörg minkabú séu rekin á landinu í dag með ágætum árangri reyndist þessi innflutningur á mink, sem slapp reyndar fyrst frá búum árið 1931, óafturkræf mistök fyrir náttúruna og mikill skaðvaldur fyrir fuglalífið í landinu. Íslensk náttúra er ekki síður viðkvæm en verðmæt. Það er því þeim mun erfiðara að skilja hvernig menn hafa látið sér koma til hugar áform um stórfellt sjókvíaeldi á kynbættum, ógeltum norskum laxi á sunnanverðum Vestfjörðum og í framhaldinu víðar um land. Okkar eigin saga eldisbúmennsku og saga Norðmanna af samsvarandi laxeldi ætti að kenna okkur að þessi áform eru hrein og klár aðför gegn íslensku lífríki. Hér er á ferðinni fádæma óumhverfisvænn landbúnaður en úrgangurinn frá eldinu er gríðarlegur, auk þess sem mikil grútarmengun getur leitt til mikils fugladauða við strendur. Sjúkdómar herja oft á eldislax, þar á meðal miklir lúsafaraldrar, og þeir geta hæglega borist í villtan lax auk þess sem ræktendur beita eiturefnum sem eru afar skaðleg fyrir náttúruna. Notkun eiturefna, sýklalyfja og litarefna hafa einnig orðið til þess að draga úr gæðum afurðarinnar. En mikilvægast er að horfa til þeirrar staðreyndar að fjöldi laxa sleppur úr kvíum. Ef horft er til umfangs þess eldis sem stefnt er að má einfaldlega gera ráð fyrir því að þar verði á ferðinni margfalt fleiri laxar en tilheyra villta íslenska laxastofninum í dag. Sé eldislaxinn ógeltur mun erfðamengunin sem af því hlýst mögulega útrýma íslenskum laxastofnum, m.a. vegna þess að laxinn hættir að rata heim úr hafi. Laxar rata ekki lengur heim í þrjár af hverjum tíu af þeim ám sem áður töldust laxveiðiár í Noregi. Það virðist oft gæta þess misskilnings að laxveiði sé einkamál moldríkra karla og komi almenningi ekki við. Það er mikill misskilningur. Laxveiði er nefnilega frábært dæmi um umhverfisvæna og arðbæra atvinnugrein í dreifðari byggðum landsins. Atvinnugrein þar sem leitast er við að hafa ferðamennina færri, um leið og hver og einn þeirra skilur meira eftir sig. Atvinnugrein þar sem tekjurnar deilast á fjölmarga bændur sem eru veiðirétthafar, veiðifélög, leiðsögumenn og veitingamenn, svo eitthvað sé nefnt. Sagan kennir okkur að það er eitthvað sem stórfelld iðnvæðing í dreifðari byggðum landsins hefur ekki getað stært sig af til þessa. Áform um stórfellt sjókvíaeldi með erfðabreyttum, ógeltum laxi er því ekki aðeins aðför gegn íslenskri náttúru, heldur einnig aðför gegn arðbærri og umhverfisvænni atvinnugrein sem blómstrar víða um land. Þetta eru þau tvö grundvallaratriði sem ráðamenn verða að átta sig á og stöðva í framhaldinu þessar skammsýnu fyrirætlanir í núverandi mynd og það strax.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. október. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Magnús Guðmundsson Mest lesið Seðlabankastjóri rannsakar sjálfan sig Einar Steingrímsson Skoðun Er ég eins og ég er? - Svar við pistli heilbrigðisráðherra Eldur Smári Kristinsson Skoðun Skuggaráðherra ríkisstjórnarinnar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Setjum á okkur súrefnisgrímuna áður en við björgum heiminum. Nú þarf hinn þögli meirihluti að láta í sér heyra Steindór Þórarinsson Skoðun Stóra spurningin sem fjárlögin svara ekki Sandra B. Franks Skoðun 30 by 30 - Gefum lífi á jörð smá séns Rósa Líf Darradóttir Skoðun Um ópið sem heimurinn ekki heyrir Reham Khaled Skoðun Talaðu núna, talaðu! Bolli Pétur Bollason Skoðun Skólabærinn Garðabær: Við mælum árangur og gerum stöðugt betur Almar Guðmundsson,Sigríður Hulda Jónsdóttir Skoðun Óttinn selur Davíð Bergmann Skoðun
Við sem erum komin á miðjan aldur eða eldri munum þá tíma þegar refa- og minkabúskapur átti að koma íslenskum sveitum til bjargar. Íslendingar gátu vart beðið þess dags þegar helmingur Hollywood-stjarna sveipaði sig íslenskum ref og hinn helmingurinn mink. En Brigitte Bardot náði eyrum heimsins, búin fóru mörg hver á hausinn en minkurinn fjölgaði sér í villtri íslenskri náttúru. Þó svo mörg minkabú séu rekin á landinu í dag með ágætum árangri reyndist þessi innflutningur á mink, sem slapp reyndar fyrst frá búum árið 1931, óafturkræf mistök fyrir náttúruna og mikill skaðvaldur fyrir fuglalífið í landinu. Íslensk náttúra er ekki síður viðkvæm en verðmæt. Það er því þeim mun erfiðara að skilja hvernig menn hafa látið sér koma til hugar áform um stórfellt sjókvíaeldi á kynbættum, ógeltum norskum laxi á sunnanverðum Vestfjörðum og í framhaldinu víðar um land. Okkar eigin saga eldisbúmennsku og saga Norðmanna af samsvarandi laxeldi ætti að kenna okkur að þessi áform eru hrein og klár aðför gegn íslensku lífríki. Hér er á ferðinni fádæma óumhverfisvænn landbúnaður en úrgangurinn frá eldinu er gríðarlegur, auk þess sem mikil grútarmengun getur leitt til mikils fugladauða við strendur. Sjúkdómar herja oft á eldislax, þar á meðal miklir lúsafaraldrar, og þeir geta hæglega borist í villtan lax auk þess sem ræktendur beita eiturefnum sem eru afar skaðleg fyrir náttúruna. Notkun eiturefna, sýklalyfja og litarefna hafa einnig orðið til þess að draga úr gæðum afurðarinnar. En mikilvægast er að horfa til þeirrar staðreyndar að fjöldi laxa sleppur úr kvíum. Ef horft er til umfangs þess eldis sem stefnt er að má einfaldlega gera ráð fyrir því að þar verði á ferðinni margfalt fleiri laxar en tilheyra villta íslenska laxastofninum í dag. Sé eldislaxinn ógeltur mun erfðamengunin sem af því hlýst mögulega útrýma íslenskum laxastofnum, m.a. vegna þess að laxinn hættir að rata heim úr hafi. Laxar rata ekki lengur heim í þrjár af hverjum tíu af þeim ám sem áður töldust laxveiðiár í Noregi. Það virðist oft gæta þess misskilnings að laxveiði sé einkamál moldríkra karla og komi almenningi ekki við. Það er mikill misskilningur. Laxveiði er nefnilega frábært dæmi um umhverfisvæna og arðbæra atvinnugrein í dreifðari byggðum landsins. Atvinnugrein þar sem leitast er við að hafa ferðamennina færri, um leið og hver og einn þeirra skilur meira eftir sig. Atvinnugrein þar sem tekjurnar deilast á fjölmarga bændur sem eru veiðirétthafar, veiðifélög, leiðsögumenn og veitingamenn, svo eitthvað sé nefnt. Sagan kennir okkur að það er eitthvað sem stórfelld iðnvæðing í dreifðari byggðum landsins hefur ekki getað stært sig af til þessa. Áform um stórfellt sjókvíaeldi með erfðabreyttum, ógeltum laxi er því ekki aðeins aðför gegn íslenskri náttúru, heldur einnig aðför gegn arðbærri og umhverfisvænni atvinnugrein sem blómstrar víða um land. Þetta eru þau tvö grundvallaratriði sem ráðamenn verða að átta sig á og stöðva í framhaldinu þessar skammsýnu fyrirætlanir í núverandi mynd og það strax.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. október.
Setjum á okkur súrefnisgrímuna áður en við björgum heiminum. Nú þarf hinn þögli meirihluti að láta í sér heyra Steindór Þórarinsson Skoðun
Skólabærinn Garðabær: Við mælum árangur og gerum stöðugt betur Almar Guðmundsson,Sigríður Hulda Jónsdóttir Skoðun
Setjum á okkur súrefnisgrímuna áður en við björgum heiminum. Nú þarf hinn þögli meirihluti að láta í sér heyra Steindór Þórarinsson Skoðun
Skólabærinn Garðabær: Við mælum árangur og gerum stöðugt betur Almar Guðmundsson,Sigríður Hulda Jónsdóttir Skoðun