Veiði

Góður frágangur fer betur með búnaðinn

Karl Lúðvíksson skrifar
Nú er aðeins veitt í fimm laxveiðiám en þó fleiri ám þar sem sjóbirtingur er aðalbráðin en tímabilið er þó að enda.

Það eru nokkur haustverk sem rétt er að minna veiðimenn á að sinna til að búnaðurinn endist sem best.  Það er nefnilega frekar leiðinlegt að taka upp græjurnar a vorinn og sjá hvað geymsla sem og lélegur frágangur getur leikið stangir, hjól og línur illa.  Þú getur nefnilega með lítilli fyrirhöfn og smá tíma gengið þannig frá öllu að búnaðurinn endist betur og er alltaf 100% tilbúinn þegar veiði hefst á vorinn.  Ef ég má nefna fernt þá er það kannski þetta helst:

1. Taktu stangir úr pokum og þrífðu þær.  Margir veiðimenn bóna stangirnar sínar en það eykur endingu og minnkar viðnám línunnar við stönginna sem aftur lengur köstin.  Svo er bónuð stöng líka bara svo falleg.

2. Þrífðu línurnar.  Skítugar línur eyðileggjast hratt og það liggur oft mikill peningur í flugulínum.  Ef þú ert ekki klár á því að gera þetta farðu í næstu veiðibúð.  Þetta tekur engan tíma, kostar lítið og línan endist þér betur sem og er tilbúinn í átökin að vori.

3. Þrífðu veiðihjólin.  Þetta getur oft verið snúið sérstaklega með nýjustu hjólin.  Bendum aftur á veiðibúðirnar.  Ömurlegt þegar gott hjól klikkar af því að því hefur verið illa viðhaldið.

4. Þrífðu vöðlur og jakka.  Flestir veiðimenn eiga orðið vöðlur og jakka með öndunarefnum.  Hentu hvoru tveggja í þvott eftir tímabilið þá verður ekki myglulykt eins og oft vill verða þegar fötin hafa hangið í geymslu yfir veturinn.  Miikilvægt er að lesa VEL á þvottamiðana sem í fötunum eru og fylgja þeim leiðbeiningum sem þar eru.






×