Veiði

Pistill: Stórvirk kvíaeldi hafa varanlega eyðilagt margar ár

Karl Lúðvíksson skrifar
Veiðimenn og fyrirtækin sem vilja standa að stórauknu kvíaeldi við landið deila um afleiðingar þess að stórauka laxeldi í sjókvíum.

Það sem þarf að skoða í þessu samhengi er reynsla annara þjóða af kvíaleldi af þeirri stærðargráðu sem stefnt er að á Íslandi og þá hvort það séu dæmi um að eldið hafi haft lítil eða ómarktæk áhrif á nærumhverfi sitt og þá sérstaklega á villta laxastofna.  Hér er ekki nóg að nefna rök á hvorn veginn sem er nema þeim fylgi dæmi um afleiðingarnar á hvorn veginn sem er.  Því miður fyrir laxeldið finnast ekki rök studd með vísindalegum rannsóknum sem segja að eldið hafi engin áhrif.  Örfáar greinar þar sem fullyrt er að eldið hafi einhver áhrif en þau ættu ekki að vera varanleg eða valda þannig skaða að villtir stofnar séu í hættu.  

Engin grein í eftirtalda flokknum var skrifuð af óháðum aðilum sem höfðu umsjón með eða framkvæmdu rannsóknir á lífíki við kvíarnar og á nær og fjærumhverfi.  Undantekningalaust eru greinarnar annað hvort skrifaðar af forssvarsmönnum fyrirtækjana eða aðilum sem sinna rannsóknum fyrir eldisfyrirtækin og fá greitt frá þeim fyrir þá vinnu.  Þar af leiðandi er hæpið að þau séu á nokkurn hátt óhlutdræg.

Greinar, rannsóknir og umsagnir aðila sem hafa raunverulega reynslu af afleiðingum kvíaeldis í sjó á villta stofna eru aftur á móti margar.  Mjög margar.  Þar hafa bæði einkaaðilar, háskólar, rannsóknarteymi frá viðurkenndum ríkisstofnunum farið hörðum orðum um afleiðingar þess að setja jafn mikinn lífmassa á lítið svæði nálægt ósum ánna og meira að segja eru áhrif á veiðisvæði 100 km og lengra neikvæð í flestum rannsóknum.

Í grein sem var skrifuð í FylRodReel er nefnt dæmi um Fundyflóa í Canada en þar er mikið magn af laxi ræktaður í kvíum.  Afleiðingar 40 ára eldis á þessum slóðum er óumdeilt.  Göngur sem áður mældust í um 40.000 löxum á tímabili eru komnar niður í 250 laxa.  Árnar á þessu svæði eru ónýtar og það er óumdeilt.  Það er ekki um að kenna hlýnandi sjó, lélegum skilyrðum í sjó eða öðrum umhverfisþáttum.  

Á þetta hefur verið bent með áralöngum rannsóknum á svæðinu.  Í Noregi er ástandið ekkert skárra, jafnvel verra en rannsókn á 125 ám af 650 ám í Noregi sýna að aðeins 35% ánna hafa ekki stofn með mælanlega erfðamengun, 25% hafa stofn með mikla erfðamengun, 7% með nokkuð mengaðan stofn og 33% með litla erfðamengun en mælanlega þó.  Athugið að í Noregi er ræktaður lax af norsku kyni sem er erfðafræðilega mjög frábrugðin þeim Íslenska, það er líka óumdeilt og eru gögn þess efnis vel þekkt sem og genísk kortalagning erfðavísa laxastofna þessara landa.

Í Bretlandi og Skotlandi eru dæmin mörg og hvergi hafa lífríki ánna staðið af sér eldi af þessari stærðargráðu og rökin fyrir því að um sé að kenna hlýnun sjávar, minnkandi fæðuframboði eða meira afáti eiga ekki við rök að styðjast.  Þó verður að nefna að nokkur vatnakerfi hafa tekið í sig töluverða iðnaðarmengun sem hefur skaðað árnar en það á helst við um árnar á vestur- og suðurströnd Bretlands.  Það er því mjög skiljanlegt að veiðimenn hafi áhyggjur sem og þeir sem vilja vernda auðlindina sem laxinn er, þ.e.a.s. villtu stofnarnir og mönnum finnst óskiljanlegt að ekki sé betur hlúð að náttúruvernd á þessum vatnasvæðum sem eru í hættu og þeim störfum, bæði beinum og afleiddum sem verða til í kringum stangveiði.  Hér fyrir neðan er greinin frá FlyRodReel og þarna er ekki um neinn skemmtilestur að ræða fyrir unnendur íslenska laxsins.  http://flyrodreel.com/death-of-atlantic-salmon/






×