Handbolti

Maður leiksins í toppslagnum fékk að heyra það frá þjálfaranum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðrún Ósk Maríasdóttir.
Guðrún Ósk Maríasdóttir. Vísir/Eyþór
Guðrún Ósk Maríasdóttir og félagar hennar í Framliðinu eru komnar með fjögurra stiga forskot á toppi Olís-deildar kvenna eftir sannfærandi fimm marka sigur á útivelli í toppslagnum á móti Stjörnunni um helgina.

Stjarnan hefði komist á toppinn með sigri en Fram-liðið komst í 5-0 í upphafi leiks og Stjörnukonur fundu fáar leiðir framhjá Guðrúnu Ósk Maríasdóttur sem var frábær í markinu.

„Þetta var mjög mikilvægt fyrir okkur,“ sagði Guðrún Ósk Maríasdóttir eftir leikinn. Hún varði 21 skot í leiknum þar af 3 vítaköst.

Það vakti athygli að Guðrún fékk reiðilestur frá þjálfaranum seint í leiknum þrátt fyrir að vera búin að verja eins og berserkur allan tímann.

„Við vorum búin að leggja upp með nokkra hluti sem ég klikkaði á. Maður á að taka ákveðna skyldubolta og þegar maður gerir það ekki þá verður hann reiður," sagði Guðrún sem gat brosað af því eftir leik.

Hún var þó engar yfirlýsingar eftir leik. „Þetta er þokkalega gott hjá okkur núna,“ sagði Guðrún.  Það stefnir samt í allt annað og betra tímabil hjá Fram en í fyrra og þar er góð markvarsla Guðrúnar að hjálpa til.

„Þetta er mjög skemmtilegt,“ sagði Guðrún. Stjörnukonur náðu ekki að stoppa sigurgöngu Fram en deildarmeistaratitilinn á leiðinni í Safamýrina?

„Mótið er ekki einu sinni hálfnað svo ég ætla ekki að skrifa deildarmeistaratitilinn á þær. Þær eru á toppnum núna og verðskulda það eftir þessa byrjun í haust. Þetta er langt mót og sterk lið í deildinni þannig að þær geta ekkert slakað á, við getum ekkert slakað á og ætlum að halda áfram að anda ofan í hálsmálið á þeim," sagði Stjörnukonan Rakel Dögg Bragadóttir eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×