Veiði

Helgarspáin vond fyrir rjúpnaskyttur

Karl Lúðvíksson skrifar
Þriðja helgin þar sem má ganga til rjúpna er framundan og það verður að segjast eins og er að ekki lítur hún vel út.

Á morgun föstudag er spáin á þann veg að það hvessir í nótt og suðaustan 18-25 og rigning á morgun, hvassast SV-til og talsverð eða mikil S- og V-lands. Snýst í vestan 8-15 V-til síðdegis og dregur úr rigningu. Hægt hlýnandi veður og hiti 6 til 13 stig á morgun, hlýjast á NV-landi. Á laugardag er svo vestan 8-15 m/s og rigning í fyrstu A-lands, en léttir síðan til þar. Annars víða skúrir eða él. Vaxandi suðaustanátt og slydda SV-til um kvöldið. Hiti 0 til 5 stig og svo á sunnudaginn sunnan- og suðvestanhvassviðri og talsverð rigning, en úrkomulítið NA-lands. Hiti 4 til 9 stig. Hægari og skúrir eða slydduél um kvöldið, en léttir til eystra og kólnar í veðri.

Veðrið á föstudaginn er varhugavert að vera á fjöllum og það sleppur engin landshluti við þetta veður nema rétt norðausturhornið og hluti af austurlandi.  Laugardagurinn lítur hins vegar ágætlega út miðað við spánna þó svo að það gæti orðið svolítið hvasst en svo er sunnudagurinn blautur og leiðinlegur.  Þetta gerir það að verkum að það verður mikið af mönnum á fjöllum á laugardaginn.  Eins og Skotvís hefur bent á er núverandi fyrirkomulag varla boðlegt þar sem skyttur hætta sér á fjöll um helgar og fara jafnvel af stað í veðri sem er stórvarasamt.  12 sóknardagar eða gamla kerfið þar sem veitt var frá 15. oktober til 22. desember hafa samkvæmt Skotvís ekki áhrif á það hversu mikið af rjúpu er veidd en dreifir álaginu á lengri tíma.

Samkvæmt könnunum bættu skyttur ekki við sig veiðidögum í gamla kerfinu og flestir gengu 3-4 daga, sumir meira.  Þeir sem mest gengu voru þeir sem skutu rjúpur til að selja í verslunum en með sölubanni hefur sú útgerð lagst af.  Langflestar skyttur hættu einnig veiðum þegar menn voru komnir með í jólamatinn svo umræðan í dag eftir því að kerfinu verði breytt er orðin ansi hávær.










×