Á meðal aðalmynda í ár er kanadíska myndin My Internship in Canada (Guibord s’en va-t-en guerre) en einn af leikurunum, Irdens Exantus, er staddur hér á landi að kynna myndina. Irdens Exantus hefur hlotið mikið lof fyrir leik sinn í myndinni sem hann segir vera pólitíska háðsádeilu sem sé óneitanlega eilítið óvenjulegt á okkar tímum.
„Ég leik ungan hugsjónamann frá Haiti sem kemur til Kanada til þess að starfa sem lærlingur hjá óháðum kanadískum þingmanni. En svo kemur upp sú staða að þessi óháði þingmaður stendur allt í einu frammi fyrir því að það er hans atkvæði sem ræður því hvort Kanada fer í stríð í Afganistan eða ekki. Lærlingurinn sem kom til hans til þess að læra meira um stjórnmál í þróuðu lýðræðisríki er skyndilega kominn inn í hringiðu svona stórra atburða. En svo eru líka alltaf hagsmunaaðilar í öllum málum þannig að það er sitthvað sem blandast inn í þetta.“
Myndin er pólitísk háðsádeila, sem gerist í hinu frönskumælandi fylki Québec, en það form verður að teljast fremur óvenjulegt í kvikmyndum dagsins í dag. Irdens Exantus segir að það eigi sér eflaust eðlilega skýringu. „Þorri fólks í Kanada að minnsta kosti lítur ekki á stjórnmál sem eitthvað fyndið. Það er ákveðinn ótti við að fjalla af léttúð um það sem er alvarlegt og nálgunin í þessari mynd er óneitanlega frekar frumleg.“

Irdens Exantus segir að hann hafi alls ekki verið pólitískur áður en hann tók að sér hlutverkið en það hafi þó breyst. „Ég spáði lítið í stjórnmál en þegar ég tók að mér hlutverkið þá fannst mér að ég þyrfti að setja mig inn í þetta og las mér því til um stjórnmál. Það er líka hluti af því að skoða þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð. En ég er líka stoltur af því að vera Kanadamaður, sérstaklega núna þegar við stöndum frammi fyrir því sem er að gerast í Bandaríkjunum. Þannig að í samanburðinum við Bandaríkin í dag þá finnst mér líka satt best að segja að við höfum sitthvað til þess að vera stolt af hjá okkur og vonandi getum við verið öðrum góð fyrirmynd.“
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. febrúar.