Um helgina stendur yfir Oates Vic Open í Ástralíu en mótið er hluti af Evrópumótaröðinni í golfi, fyrir bæði karla og konur. Mótin fara fram samtímis en Valdís Þóra Jónsdóttir er á meðal keppenda í kvennaflokki og er komin í gegnum niðurskurðinn.
Sjá einnig: Valdís Þóra komst í gegnum niðurskurðinn
Fram kemur á heimasíðu Evrópumótaraðarinnar að nú sé jafn mikið veitt fyrir sigur í karlaflokki og í kvennaflokki. Heildarverðlaunafé er ein milljón ástralska dollara, um 87 milljónir króna, en verður 1,3 milljónir á næsta ári.
Þess ber að geta að keppendur á áströlsku mótaröðinni í golfi kvenna fá einnig þátttökurétt á mótinu, sem og kylfingar á mótaröð karla í Ástralíu og Asíu [e. Tour of Australasia].
Það er þó spilað um mun hærri upphæðir á bandarísku mótaröðunum í golfi en til samanburðar má nefna að heildarverðlaunafé fyrir Pure Silk-mótið á Bahamaeyjum í síðasta mánuði var 158 milljónir króna.
Það mót er hluti af LPGA-mótaröðinni þar sem Ólafía Þórunn Jónsdóttir er á meðal þátttakenda.
