Valur er Reykjavíkurmeistari kvenna í fótbolta eftir 3-1 sigur á Fylki í úrslitaleik í Egilshöllinni í kvöld.
Karlalið Vals varð Reykjavíkurmeistari á dögunum og konurnar léku sama leik í kvöld.
Fylkir fékk sannkallaða draumabyrjun en Sæunn Rós Ríkharðsdóttir kom Árbæingum yfir þegar aðeins 33 sekúndur voru liðnar af leiknum.
Margrét Lára Viðarsdóttir jafnaði metin í 1-1 á 45. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.
Í seinni hálfleik var komið að Elínu Mettu Jensen. Hún kom Val yfir á 47. mínútu og skoraði svo sitt annað mark á 68. mínútu.
Elín Metta fékk tækifæri til að ná þrennunni þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. Brotið var á Elínu Mettu innan teigs, hún fór sjálf á punktinn en Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir varði spyrnu hennar.
Það kom þó ekki að sök því Valur vann leikinn 3-1 og er því Reykjavíkurmeistari 2017.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.
