Kvennalið Þórs/KA spilar hvorki í Þórsbúningi né KA-búningi í sumar

Íþróttafélag Þórs og Knattspyrnufélag Akureyrar hafa náð samningum um áframhald á samstarfi félaganna í kringum rekstur kvennaliðs Þórs/KA í knattspyrnu.
Formenn félaganna skrifa undir samninginn á morgun, fimmtudaginn 16. mars, klukkan 12.00 við verslun Nettó á Glerártorgi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Geir Kr. Aðalsteinssyni, formanni ÍBA, um kvennalið Þórs/KA í knattspyrnu.
Undanfarnar vikur hafa staðið yfir viðræður á milli félaganna með milligöngu Íþróttabandalags Akureyrar um samstarfið og framtíð þess með hag KA, Þórs og iðkenda að leiðarljósi.
Hinn nýi samningur gildir til haustsins 2019 og tryggir hann jafna aðkomu beggja félaga að rekstrinum.
Búningar liðsins verða hlutlausir frá og með komandi keppnistímabili en til þessa hefur liðið leikið í Þórsbúningnum.
Lögð er áhersla á aukið samstarf Þórs og KA um rekstur meistaraflokks, annars flokks og varaliðs í meistaraflokki, auk þess sem tryggja á aukið samstarf Þórs/KA við yngri flokka félaganna tveggja.
Tengdar fréttir

Formaður Þórs: Við erum ráðvillt
Segir að enginn sérstakur ágreiningur hafi verið á milli Þórs og KA. Hann hefði kosið að fara aðra leið en að slíta samstarfinu einhliða.

Deilt um peninga á Akureyri: Við fórum eftir fyrirmælum KSÍ
Úthlutun KSÍ til Þórs og KA var að hluta til byggð á árangri Þórs/KA en ósætti er um hvernig upphæðinni var ráðstafað.

Vilja óbreytt samstarf Þórs og KA
Forráðamenn Þórs á Akureyri hafa ekki gefið upp von um að samstarfi félagsins við KA um rekstur kvennaliða á Akureyri verði haldið áfram, þrátt fyrir yfirlýsingu KA um annað.

Möguleiki á áframhaldandi samstarfi Þórs og KA
Í vikunni hafa staðið yfir viðræður á milli Þórs og KA, með milligöngu Íþróttabandalags Akureyrar, um samstarf sameiginlegs kvennaliðs Þórs/KA í fótbolta.

KA sleit samstarfinu við Þór: Þetta var ekki létt ákvörðun
KA og Þór munu ekki tefla fram sameiginlegum liðum í knattspyrnu og handbolta eftir núverandi keppnistímabil. Óvissa er um stöðu Þórs/KA í Pepsi-deild kvenna í sumar.

Þór/KA spilar í Pepsi-deildinni í sumar
Einlægur vilji Þórs að halda óbreyttu fyrirkomulagi á rekstri sameiginlegs kvennaliðs Þórs og KA.