Valdís Þóra Jónsdóttir átti erfitt uppdráttar á seinni níu holunum á Terre Blanche mótinu í Frakklandi sem hófst í dag og er hluti af LET Access mótaröðinni.
Valdís Þóra lék fyrsta hringinn á 79 höggum eða sjö höggum yfir pari. Hún er ellefu höggum á eftir fremstu konu og er í 84. sæti.
Valdís Þóra ætlaði að nota þetta verkefni til að komast í meiri leik- og keppnisæfingu en það eru rúmlega sex vikur síðan hún keppti síðast.
Valdís Þóra byrjaði vel og var einu höggi undir pari eftir sex fyrstu holurnar. Hún fékk skolla á bæði sjöundu og níundu holu og var á einu yfir pari eftir fyrri níu. Staðan átti hinsvegar eftir að versna mikið.
Síðari hluti hringsins varð henni mjög erfiður en Valdís fékk sex skolla og einn þrefaldan skolla á síðustu tíu holunum.
Valdís Þóra náði reyndar fugli á bæði tíundu og sautjándu holu og var því með þrjá fugla á hringnum. Átta töpuðu högg á síðustu átta holunum sýnir svart á hvítu hversu lítið gekk upp á seinni níu holunum hjá henni.
Valdís Þóra fór ekki nógu vel af eftir sex vikna frí
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
