Handbolti

Hildur: Okkur þyrstir í titil

Smári Jökull Jónsson skrifar
Fram þarf aðeins einn sigur í viðbót til að tryggja sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins.
Fram þarf aðeins einn sigur í viðbót til að tryggja sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins. vísir/hanna
Skyttan öfluga hjá Fram, Hildur Þorgeirsdóttir, sagði liðið þurfa að laga sóknarleikinn fyrir næsta leik í einvíginu gegn Haukum. Hún var þó hæstánægð með sigurinn í Hafnarfirði í dag.

„Við erum að skjóta svolítið illa í leiknum en í heildina er ég ánægð með sigurinn. Við viljum spila hraðan bolta og þá koma tæknifeilar. Við erum að reyna að fækka þeim með hverjum leik en höfum ekki alveg náð dampi þar. Við þurfum að einbeita okkur að því að fækka mistökunum.“

„Sóknarlega þurfum við að laga okkar leik. Við erum að skora 20 mörk og erum að láta markmanninn þeirra verja of mikið. Við erum að skjóta of mikið í hennar horn en heilt yfir er ég sátt.“

Framliðið getur tryggt sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins í næsta leik en Hildur sagði ekkert unnið þó svo að þær væru í góðri stöðu og sagði úrslitin í deildarkeppninni gott dæmi um það.

„Auðvitað er mikilvægt að fá hvíld. Það er samt ekkert unnið strax og það sýndi sig í deildinni, við vorum búnar að vera efstar allan veturinn og missum af titlinum í síðasta leik. Við þurfum enn að koma af 100% krafti í síðasta leikinn. Við erum mjög þyrstar í titil og ætlum að hefna fyrir það tap,“ sagði Hildur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×