Handbolti

Ragnheiður: Ákvað að skjóta og sjá hvað myndi gerast

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ragnheiður fagnar eftir að hafa skorað sigurmarkið.
Ragnheiður fagnar eftir að hafa skorað sigurmarkið. vísir/ahanna
„Ég hugsaði bara um að skjóta og ná hendinni eins hátt og ég gat. Og boltinn fór inn,“ sagði Ragnheiður Júlíusdóttir, hetja Fram, eftir sigurinn á Haukum í undanúrslitum Olís-deildar kvenna í dag.

Ragnheiður skoraði sigurmark Fram með skoti beint úr aukakasti þegar leiktíminn var runninn út.

„Veggurinn var aðeins of mikið til vinstri en Ramune [Pekarskyte] var samt beint á móti mér og hún var lang hávöxnust í liðinu. En ég ákvað að skjóta og sjá hvað myndi gerast,“ sagði Ragnheiður sem var sátt með sigurinn, sérstaklega í ljósi þess hversu illa Fram spilaði í fyrri hálfleik.

„Við mættum ekki í fyrri hálfleik og spiluðum ömurlega vörn og ömurlega sókn og markvarslan var lítil. En svo ákváðum við að hætta að taka Ramune út og spila almennilega og þá gekk þetta.“

Ragnheiður átti erfitt uppdráttar lengi vel í leiknum en hrökk í gang um miðjan seinni hálfleik og skoraði fimm af síðustu níu mörkum Fram.

„Ég var ekki ánægð með fyrri hálfleikinn þar sem ekkert gekk upp. Boltinn fór ekki í markið og það æsir mig upp. Ég ætlaði að vinna þennan leik,“ sagði Ragnheiður.

Hún segir að Fram geti ekki leyft sér að byrja næstu leiki jafn illa og þennan.

„Við þurfum að vera tilbúnar frá fyrstu mínútu og spila góðan varnarleik því þetta eru ótrúlega jöfn lið og hörkuleikir,“ sagði Ragnheiður að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×