Handbolti

Fyrsta serían sem Anna Úrsúla tapar í úrslitakeppni í tólf ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir með Íslandsbikarinn.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir með Íslandsbikarinn. Vísir/Valli
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir og félagar hennar í Gróttu eru komnar í sumarfrí og það er tilfinning sem Anna Úrsúla hefur ekki fundið fyrir í meira en áratug.

Gróttukonur, Íslandsmeistarar tveggja síðustu ára, komust í 2-0 á móti Stjörnunni í undanúrslitum Olís-deildar kvenna en eru úr leik eftir þrjú töp í röð.

Stjarnan mætir því Fram í lokaúrslitunum og hefndi þar með fyrir tap á móti Gróttu í úrslitaeinvíginu undanfarin tvö tímabil.

Anna Úrsúla var búin að fagna Íslandsmeistaratitlinum í sex síðustu úrslitakeppnum sínum, fyrst fjórum sinnum með val frá 2010 til 2014 og svo undanfarin tvö tímabil með uppeldisfélagi sínu Gróttu.

Valskonur unnu titilinn 2010, 2011, 2012 og 2014 en misstu af honum vorið 2013. Það var einmitt úrslitakeppnina þar sem Anna Úrsúla var í barneignafríi og gat ekki spilað með liðinu.

Anna Úrsúla tapaði síðast seríu í úrslitakeppni í apríl 2005 eða fyrir tólf árum síðan. Hún lék þá með liði Gróttu/KR sem datt út úr átta liða úrslitum á móti einmitt Stjörnunni.

Það var engin úrslitakeppni á árunum 2006 til 2008 og vorið 2009 var Anna Úrsúla að glíma við meiðsli auk þess að Gróttuliðið hennar komst ekki í úrslitakeppnina. Hún hafði reyndir byrjað 2008-09 tímabilið með Stjörnunni (sem varð meistari vorið 2009) en skipti aftur yfir í Gróttu.

Anna Úrsúla skipti yfir í Val sumarið 2009 og við tók mikil sigurganga með Valsliðinu sem hafði þá ekki unnið Íslandsmeistaratitilinn í 27 ár en vann hann fjórum sinnum á næstu fimm ár eins og áður sagði.

Hún var búin að fagna sigri í fimmtán seríum í röð í úrslitakeppninni þegar hún tapaði oddaleiknum á móti Stjörnunni á sunnudaginn.



Fagnaði sigri í fimmtán seríum í röð í úrslitakeppni

Með Val

2009-10 Íslandsmeistari

1) 2-0 sigur á  Haukum í undanúrslitum

2) 3-1 sigur á Fram í lokaúrslitum

2010-11 Íslandsmeistari

3) 2-0 sigur á  Fylki í undanúrslitum

4) 3-0 sigur á Fram í lokaúrslitum

2011-12 Íslandsmeistari

5) 3-0 sigur á Stjörnunni í undanúrslitum

6) 3-2 sigur á Fram í lokaúrslitum

2012-13 Barneignafrí

2013-14 Íslandsmeistari

7) 2-0 sigur á Haukum í 8 liða úrslitum

8) 3-1 sigur á ÍBV í undanúrslitum

9) 3-2 sigur á Stjörnunni í lokaúrslitum

Með Gróttu

2014-15 Íslandsmeistari

10) 2-0 sigur á Selfossi í 8 liða úrslitum

11) 3-2 sigur á ÍBV í undanúrslitum

12) 3-1 sigur á Stjörnunni í lokaúrslitum

2015-16 Íslandsmeistari

13) 2-0 sigur á Selfossi í 8 liða úrslitum

14) 3-0 sigur á Fram í undanúrslitum

15) 3-1 sigur á Stjörnunni í lokaúrslitum

2016-17 Út í undanúrslitum

3-2 tap á móti Stjörnunni í undanúrslitum


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×