Viðskipti innlent

Stefnir í mikið álag með fjölgun ferðamanna langt umfram spár

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fjölgun erlendra ferðamanna fyrstu fjóra mánuði ársins er langt umfram spár. Reyndur ferðaþjónustumaður óttast skort á gistirými og segir hætt við að álag aukist verulega á helstu ferðamannastaði í sumar. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. 

Erlendum ferðamönnum fjölgaði um 40 prósent í fyrra, urðu nærri 1,8 milljónir allt árið. Greiningaraðilar hafa verið að spá 35 prósenta fjölgun ferðamanna í ár en aukningin fyrstu fjóra mánuði ársins er mun meiri, eða 56 prósent. En hvernig verður ástandið i sumar?

Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda, hefur 36 ára reynslu úr ferðaþjónustu. Hann segir viðbúið að mikið álag verði á stærstu ferðamannastöðunum, ekki síst þegar mörg skemmtiferðaskip séu samtímis í höfn. Miðað við þá fjölgun, sem stefni í, verði slíkir dagar ennþá stærri áskorun. 

„Og þá er upplifun ferðamannanna í húfi,“ segir Sævar.

Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda.Stöð 2/Björn Sigurðsson.
Gistirými muni skorta, einkum með suðurströndinni. Það sé meira og minna orðið uppbókað. Önnur svæði séu hins vegar ekki fullbókuð og gætu tekið við fleirum en þá sé vandamálið að koma ferðamönnum þangað því suðurströndin sé ákveðinn tappi. 

Sævar býst við að þeim fjölgi sem sofi í bílaleigubílum á bílastæðum um land allt og það sé engan veginn í lagi. 

„En þetta er ein afleiðingin af fjölguninni, að það vantar gistirými,“ segir Sævar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×