Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KR - Breiðablik 1-1 | Óskar kom í veg fyrir að KR færi í fallsæti

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gísli Eyjólfsson og Skúli Jón Friðgeirsson í skallaeinvígi.
Gísli Eyjólfsson og Skúli Jón Friðgeirsson í skallaeinvígi. vísir/anton
Fyrri hálfleikur var stórkostleg skemmtun og þetta var einn skemmtilegasti hálfleikur sem ég hef séð í íslenska boltanum lengi.

KR-ingar frábærir framan af, óðu í færum en var algerlega fyrirmunað að skora. Blikarnir unnu sig svo inn í leikinn og fóru að fá færi á færibandi. Leikurinn opinn í báða enda en inn vildi boltinn ekki.

Það gerði hann aftur á móti eftir hálftíma leik er Tokic tók aukaspyrnu, boltinn fór í stöngina og þaðan í Beiti markvörð og svo í netið. Sjálfsmark. Grátlegt fyrir Beiti.

Bæði lið fengu fullt af færum áður en yfir lauk í fyrri hálfleik en þetta eina mark var uppskeran úr stórskemmtilegum fyrri hálfleik.

Síðari hálfleikur var ekki eins góður og sá fyrri en samt sprækur. Liðin að fá færi og þá sérstaklega KR. Liðinu var aftur á móti fyrirmunað að skora og sérstaklega fór Tobias Thomsen illa með mörg færi.

Það var svo komið fram í uppbótartíma er KR fékk ódýra vítaspyrnu er varamaðurinn Guðmundur Andri Tryggvason féll í teignum. Ungi maðurinn gabbaði hinn reynda Gunnleif niður i návígið og víti dæmt. Úr því skoraði Óskar Örn af öryggi.

KR slapp með stig en liðið hefði verið í fallsæti eftir átta leiki ef KR hefði ekki skorað þarna. Staða liðsins alls ekki góð.

Af hverju endaði leikurinn með jafntefli?

Bæði lið fengu urmul færa í þessum leik og lokatölurnar 8-8 voru í raun ekki svo galnar. Leikmenn gleymdu þó markaskónum heima.

Þó svo KR sé í erfiðleikum þá er liðið alls ekki að spila illa og ekki vantar að liðið fái færi. Leikmenn liðsins eru aftur á móti ævintýralegir klaufar fyrir framan markið.

Blikar hefðu líka getað gengið frá leiknum og reynslubolti eins og Gulli á ekki að láta gabba sig eins og hann gerði í lokin.

Þessir stóðu upp úr

Skúli Jón kom frekar óvænt á miðjuna hjá KR en leysti sitt hlutverk vel. Stöðvaði margar sóknir og skilaði bolta vel frá sér.

Gísli Eyjólfsson var líka stórskemmtilegur. Kom sér í góðar stöður, átti flott skot og var virkilega öflugur.

Hvað gekk illa?

Að nýta færin. Ég man ekki hvenær ég sá svona mörg klúður í einum og sama leiknum. KR nær sér ekki upp úr kjallaranum ef liðið nýtir ekki öll þessi færi og sama nær yfir Blikana.

Hvað gerist næst?

KR á mjög erfiðan leik á Akureyri næst í deildinni gegn spræku liði KA sem hefur kunnað þá list oft í sumar að refsa. Það kann KR ekki.

Blikarnir fara til Eyja og fá tækifæri til þess að glíma við Eyjalið sem hefur verið sterkara en margir héldu.

KR (4-3-3): Beitir Ólafsson 6 - Morten Beck 4, Aron Bjarki Jósepsson 5, Gunnar Þór Gunnarsson 5, Arnór Sveinn Aðalsteinsson 4 - Skúli Jón Friðgeirsson 7, Finnur Orri Margeirsson 3 (77., Garðar Jóhannsson -), Pálmi Rafn Pálmason 6 - Óskar Örn Hauksson 6, Kennie Knak Chopart 3 (74., Robert Sandnes -), Tobias Thomsen 4 (88., Guðmundur Andri Tryggvason -).

Breiðablik (4-3-3): Gunnleifur Gunnleifsson 5, Ernir Bjarnason 5, Damir Muminovic 5, Michee Efete 5, Davíð Kristján Ólafsson 6 - Andri Rafn Yeoman 5, Gísli Eyjólfsson 7, Arnór Ari Atlason 6 - Höskuldur Gunnlaugsson 5, Martin Lund Pedersen 6 (79., Aron Bjarnason -), Hrvoje Tokic 6.

Gunnleifur: Strákurinn gerði þetta vel

Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Blika, var að vonum svekktur í leikslok en var rétt að dæma víti á hann í lokin?

„Hann gerði þetta vel strákurinn og skildi eftir lappirnar. Ég var auðvitað asni að dýfa mér niður. Ég held  hins vegar að dómarinn hafi ekkert séð það. Strákurinn gerði þetta vel,“ sagði Gunnleifur en kom hann við Guðmund Andra?

„Hann endaði í mér. Þetta er víti og ekkert við því að segja. Ég lét plata mig niður. Það er svekkjandi. Mér fannst við spila vel í dag og halda KR-ingunum í skefjum.

„Þeir voru mikið í löngum og háum boltum og við vorum mikið að taka seinni boltann. Við vorum duglegir í dag en því miður bara eitt stig.“

Willum: Verðum að fara á skotæfingu

Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, var ánægður með stigið í kvöld en svekktur að hafa ekki fengið fleiri miðað við hvað KR fékk af færum.

„Verður maður ekki að virða stigið. Er ekki alltaf verið að segja það,“ sagði Willum sposkur.

„Auðvitað hefði ég viljað fá öll stigin. Við sköpum fullt af færum en náum ekkert að nýta þau. Ég held við verðum að fara á skotæfingu eftir þetta.“

KR var í fallsæti áður en liðið jafnaði í lokin en engu að síður er staða liðsins ekki glæsileg. Það er samt engan bilbug að finna á Willum.

„Ég er hér til þess að hjálpa liðinu og verð hér á meðan minnar aðstoðar er óskað og félagið og strákarnir telja mig geta hjálpað. Ég er í þessu af hjartanu og því mér þykir vænt um félagið.“

Milos: Dómarinn gat ekki séð hvort þetta var víti

„Þetta er búin að vera erfið vika en svona er fótboltinn. Stundum er þetta sætt og stundum súrt,“ sagði Milos Milojevic, þjálfari Blika, svekktur eftir leik.

Milos var ósáttur við dómgæsluna er vítið var dæmt en reyndi að gera sem minnst úr því eftir leikinn.

„Ég var ósáttur við varnarleikinn áður en þeir fá vítið. Ég veit ekki með vítið. Eina sem ég get sagt um þetta víti er að dómarinn var ekki þannig staðsettur að hann gat séð hvort þetta var víti eða ekki. Hann var tvo metra frá mér,“ segir Milos en Þóroddur var lengi að ákveða hvort hann ætti að dæma víti en hann stóð rétt hjá Blikabekknum.

„Skrítin tilfinning að vera svekktur að fá eitt stig í Vesturbænum en miðað við að fá óteljandi færi og vera yfir fram í uppbótartíma er það svekkjandi. Maður verður að virða stigið og stig í Vesturbæ er ekki slæmt.

„Ég veit ekki af hverju við fáum mörk á okkur í lokin. Ég er fótboltaþjálfari en ekki sálfræðingur. Það klikkar ein varnarfærsla, þeir komast í gegn og víti. Að sjálfsögðu skora menn úr vítum. Það þarf að vera mikið að ef Óskar Örn skorar ekki úr vítum. Mér fannst við fá betri færi í leiknum og framlag leikmanna var mjög gott.“

vísir/ernir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira