Ómar Ingi Magnússon átti ágæta innkomu þegar
íslenska karlalandsliðið í handbolta tapaði fyrir því tékkneska í undankeppni EM 2018 á miðvikudaginn. Hann skoraði eitt mark og gaf nokkrar stoðsendingar á félaga sína.
Ómar Ingi og félagar hans í íslenska liðinu fá tækifæri til að tryggja sér sæti á EM þegar þeir mæta Úkraínu í kvöld. Sigur kemur Íslandi á EM en jafntefli eða tap þýðir að strákarnir sitja eftir með sárt ennið. En hvernig leggst leikurinn í Ómar Inga?
„Bara vel. Við þurfum að sjálfsögðu að gera hlutina aðeins betur, sérstaklega nýta skotin okkar betur. Við fengum fín færi í síðasta leik sem við þurfum að nýta betur. Þá gengur sóknin sjálfsagt betur,“ sagði Selfyssingurinn í samtali við Vísi.
„Það voru margir fínir hlutir í síðasta leik. Við þurfum að bæta ofan á það og laga smáatriðin.“
Ómar Ingi kvaðst nokkuð sáttur með sína innkomu gegn Tékkum.
„Þetta gekk bara þokkalega. Þetta er alltaf gaman, að koma inn á og berjast. Vonandi heldur það áfram,“ sagði Ómar Ingi sem var að klára sitt fyrsta tímabil sem atvinnumaður.
Hann lék með Aarhus í dönsku úrvalsdeildinni í vetur og komst vel frá sínu. En er mikill munur á dönsku og íslensku deildinni?
„Að sjálfsögðu. Það er auðvitað betri handbolti þar. Ég er ánægður með áskorunina og klár í næsta tímabil,“ sagði Ómar Ingi.
„Hvert lið er kannski með 3-4 betri leikmenn að meðaltali. Það er smá klassamunur á heildina litið.“
En telur Ómar Ingi að hann sé mikið betri leikmaður í dag en áður en hann fór út í atvinnumennskuna?
„Ég tel mig hafa bætt mig eitthvað. Maður reynir að bæta sig á hverjum degi og það skilar sér á endanum,“ sagði Ómar Ingi sem leikur sinn sautjánda A-landsleik í kvöld.
Leikur Íslands og Úkraínu hefst klukkan 18:45 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.