Íslenski boltinn

Leiknismenn geta komist í undanúrslit í fyrsta sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leiknismenn slógu Grindvíkinga út í 16-liða úrslitunum.
Leiknismenn slógu Grindvíkinga út í 16-liða úrslitunum. vísir/ernir
Leiknir R. getur brotið blað í sögu félagsins þegar liðið tekur á móti ÍA í síðasta leik 8-liða úrslita Borgunarbikars karla í kvöld.

Með sigri komast Leiknismenn í undanúrslit bikarkeppninnar í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Leiknir er þegar búinn að ná besta bikarárangri í sögu félagsins en fyrir tímabilið í ár höfðu Leiknismenn aldrei komist lengra en í 16-liða úrslit.

Leiknir byrjaði á því að vinna Stokkseyri, 0-5, í 2. umferð Borgunarbikarsins og vann svo Þrótt R., 2-1, í 32-liða úrslitunum. Leiknismenn slógu svo Grindvíkinga út í 16-liða úrslitunum eftir vítaspyrnukeppni.

Mótherjar Leiknismanna í kvöld, Skagamenn, eiga öllu glæstari bikarsögu en Breiðhyltingar. ÍA hefur níu sinnum orðið bikarmeistari en aðeins KR (14) og Valur (11) hafa unnið bikarinn oftar.

Skagamenn urðu bikarmeistarar í níunda sinn árið 2003. Garðar Gunnlaugsson, sem er fyrirliði ÍA í dag, skoraði þá eina markið í úrslitaleik gegn FH. Fyrirliði ÍA var Gunnlaugur Jónsson en hann þjálfar liðið í dag.

Frá þeim bikarmeistaratitli hafa Akurnesingar ekki gert neinar rósir í bikarkeppninni. Raunar hafa þeir ekki komist lengra en 8-liða úrslit síðan 2003. Það yrði því býsna stór áfangi fyrir þá að komast loksins aftur í undanúrslit.

Leikur Leiknis og ÍA hefst klukkan 19:15 í kvöld og verður í beinni textalýsingu á Vísi.

Skagamenn fagna bikarmeistaratitlinum 2003.vísir/þök



Fleiri fréttir

Sjá meira


×