Mathöllin á Hlemmi opnar dyr sínar í fyrsta sinn á laugardag í tilefni af menningarnótt eftir langa fæðingu. Ekki er þó um eiginlegt opnunarpartý að ræða.
Ragnar Egilsson, framkvæmdastjóri Mathalllarinnar á Hlemmi, áætlar að 7 af 10 stöðum mun opna.
„Þetta lítur bara mjög vel út þetta er búið að vera dálítið erfið fæðing. Við erum að horfa fram á það núna að meirihluti staðanna muni opna á laugardag. Við ætlum að sjö staðir af tíu munu opna á menningarnótt," segir Ragnar.
„Þetta verður ekki eiginlegt opnunarpartí þetta verður mjúk opnun eins og mætti orða það. Undirbúningi miðar mjög vel," segir Ragnar.
Síðasta vikan af undirbúningi hefur að sögn Ragnars farið í eftirlitsmál. „Þetta voru aðallega eftirlitsstofnanir, við vorum að fá alla okkar pappíra á hreint. Það var helst það það voru engin önnur frágangsmál sem lágu fyrir," segir Ragnar.
Ragnar hvetur fólk til að koma í heimsókn á laugardag þó höllin sé ekki í sinni endanlegu mynd.
