
Steingrímur Birgisson segir að Bílaleiga Akureyrar/Höldur hafi keypt fyrsta rafbílinn árið 2008 og það hafi þá verið gert í tilraunaverkefni með Orkuveitu Reykjavíkur, Orkustofnun og fleiri aðilum. Bílaleigan á í dag um 20 rafbíla af 4.600 bíla flota. Önnur stór bílaleiga, Hertz bílaleigan, á fimm rafbíla. „Þetta gerist og það er bara gott. En þetta mun taka tíma,“ segir Steingrímur.
Steingrímur nefnir sem dæmi að það þurfi að vera til rafmagn á Keflavíkurflugvelli til að hlaða bílaleigubíla. „Það þurfa að vera til hleðslustöðvar út um allt landið,“ bætir Steingrímur við. Í dag séu til rafbílar sem fullyrt er að geti farið 300 kílómetra á hleðslu.
„En þeir fara aldrei nema 220 og ferðamaðurinn er oft að keyra 300 til 400 kílómetra. Þannig að hann þarf einhvers staðar að komast í hleðslu og best er að hann geri það á einhverjum næturstað, á hóteli eða gistiheimili,“ segir Steingrímur.
Steingrímur segir að það sé mikið mál að koma upp þeim innviðum sem þarf og ekki sé hægt að kalla eftir því að það gerist á einni nóttu. En uppbyggingin verði hægt og rólega. „Það er allt í lagi að við Íslendingar verðum framarlega í flokki en ég held að það séu engin efni til þess að við séum fremstir í flokki. Ég held að það sé margt annað í þjóðfélaginu sem liggur meira á að laga.“