Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var óánægður með niðurstöðuna þegar hans menn misstu niður 1-0 forystu gegn Stjörnunni í uppbótartíma. Hólmbert Aron Friðjónsson tryggði þá Stjörnunni jafntefli með marki á 92. mínútu en FH-ingar vildu meina að það hafi verið brotið á þeirra manni í aðdraganda marksins.
Eftir leik sauð upp úr á milli liðanna. Pétur Viðarsson, varnarmaður FH og þeir Brynjar Björn Gunnarsson og Davíð Snorri Jónasson, sem báðir eru í þjálfaraliði Stjörnunnar, voru allir reknir af velli áður en yfir lauk.
Heimir sá ekki hvað gerðist í lokin en sendi þó Stjörnunni tóninn.
„Það er þannig með Stjörnuna, þeir eru kerfisbundið gólandi á dómarann, fjórða dómarann og línuvörðinn. Þetta var farið að fara í pirrurnar á mönnum. Davíð [Snorri] er þar fremstur í flokki, og þá geta hlutirnir endað svona.“
„En varðandi Villa [Vilhjálm Alvar Þórarinnson] dómara. Villi greyið sem er mjög góður dómari, hann hefur aðeins misst sjálfstraustið þegar misvitrir menn tóku hann af lífi eftir Víkingur Reykjavík - KA.“
Nánari umfjöllun og viðtöl má sjá hér fyrir neðan.
