Knattspyrnudeild ÍA greindi frá því í kvöld að Gunnlaugur Jónsson væri hættur sem þjálfari liðsins.
Gunnlaugur óskaði eftir því sjálfur að fá að stíga til hliðar. Hann ræddi þá hugmynd eftir tapið gegn ÍBV í gær og er nú hættur degi síðar.
Aðstoðarmaður Gunnlaugs, Jón Þór Hauksson, mun stýra liði ÍA út leiktíðina. Hér má sjá yfirlýsingu Skagamanna í heild sinni.
ÍA er í botnsæti Pepsi-deildarinnar eftir 16 umferðir með aðeins 10 stig. Sex stig eru í liðið þar fyrir ofan en það eru ÍBV og Fjölnir.
Gunnlaugur var á sínu fjórða ári með Skagaliðið en hann tók við eftir sumarið 2013.

