Ólafía Þórunn Kristinsdóttir spilaði í dag fyrsta hringinn á Evian risamótinu á pari sem er hennar besta spilamennska á risamóti til þessa.
Þorsteinn Hallgrímsson og Friðrik Þór Halldórsson tökumaður eru út í Frakklandi að fylgjast með Ólafíu.Þeir félagar hafa nú tekið saman myndband með þessum frábæra degi hjá okkar konu.
Þar má sjá Ólafíu á golfvellinum í dag auk þess sem Þorsteinn Hallgrímsson fer yfir frammistöðu hennar og möguleikana í framhaldinu.
Að lokum ræddi Þorsteinn við Ólafíu um daginn. „Ég fékk fuglinn á síðustu holunni og þá get ég verið sátt,“ sagði Ólafía. Þorsteinn segir að það vantaði ekki mikið upp á að Ólafía hefði spilað á 3 til 4 högg undir pari.
„Mér fannst ég vera að spila ótrúlega vel og ég var alltaf að pútta fyrir fugli. Þeir féllu ekki alveg nógu margir í dag,“ sagði Ólafía.
Það má sjá þetta myndband í spilaranum hér fyrir ofan.

