Golf

Ólafía við niðurskurðarlínuna eftir annan hring í Frakklandi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Vísir/Getty
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, kylfingur úr GR, kom í hús á þremur höggum yfir pari á öðru hring Evian risamótins í Frakklandi sem er hluti af LPGA-mótaröðinni, þeirri sterkustu í heimi en það verður ekki ljóst fyrr en seinna í dag hvort hún komist í gegnum niðurskurðinn.

Þetta fimmta og síðasta risamót ársins í kvennagolfinu fer fram á golfvelli Evian Resort golfklúbbnum en þetta er þriðja risamótið sem Ólafía tekur þátt í á fyrsta tímabili sínu í þessari sterkustu mótaröð heimsins.

Ólafía fór snemma af stað í dag, rétt um hálf sjö á íslenskum tíma en hún lenti í kröppum dansi strax í byrjun. Fékk hún skolla á annarri braut    eftir að hafa misst tæplega þriggja metra pútt en hún lenti í meiri vandræðum á næstu holu.

Eftir flott upphafshögg missti hún boltann í hliðarvatnstorfæru og mistókst björgunartilraun hennar en hún fékk þrefaldan skolla á þeirri braut og var komin á fjögur högg yfir parið eftir tvær holur eftir að hafa leikið fyrsta hringinn á pari.

Hún lét það ekki á sig fá á næstu holum en hún fékk par á næstu þremur holum og fylgdi því eftir með tveimur fuglum á þremur holum. Var hún því á tveimur höggum yfir pari eftir fyrri níu holur dagsins.

Skolli á elleftu braut lét sjá sig annan daginn í röð en hún svaraði því með að para seinustu sjö holur vallarins og kom því í hús á þremur höggum yfir pari.

Þegar þetta er skrifað deilir Ólafía 65. sæti ásamt tíu öðrum kylfingum en 75 efstu kylfingarnir komast í gegnum niðurskurðinn á lokadag mótsins sem fer fram á morgun.

Það eiga margir kylfingar eftir að klára og sumir hverjir eftir að fara út í dag og verður það því ekki ljóst fyrr en seinni partinn hvort hún verði meðal þátttakenda á morgun og komist í gegnum niðurskurðinn á einu af risamótunum í fyrsta skiptið á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×