Mótshaldarar á Evian Championship-mótinu í Frakklandi, síðasta stórmóti ársins í kvennagolfinu, hafa ákveðið að aflýsa keppni dagsins. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er á meðal þátttakenda á mótinu og náði ekki að spila í morgun áður en keppni var hætt vegna mikillar rigningar.
Ákveðið hefur verið að skera mótið niður um einn keppnisdag og verður mótið því aðeins þrír keppnisdagar. Niðurskurðurinn verður framkvæmdur á laugardagskvöld, eftir annan keppnisdag.
Ólafía mun því eins og aðrir kylfingar spila á morgun. Sýnt verður frá mótinu í beinni útsendingu á Golfstöðinni og fylgst með gangi mála á íþróttavef Vísis.
